Ísland frá A til Ö

Erfiðasta karókílagið til að kynna Ísland fyrir ferðamönnum.

Mynd: Inspired by Iceland

Íslenska stafrófið og landshlutarnir sjö eru í öndvegi í nýrri markaðsherferð Inspired by Iceland sem Íslandsstofa kynnti í dag. Herferðin kallast „Ísland frá A til Ö“ og var henni hleypt af stokkunum með frumsýningu á nýju myndbandi þar sem Steindi Jr. skorar á fólk að syngja erfiðasta karókí lag í heimi, „The A to Ö of Iceland.“

Í tilkynningu segir að í markaðsstarfi ferðaþjónustunnar undanfarin ár hefur verið lögð rík áhersla á að draga úr árstíðasveiflu og hvetja ferðamenn til að ferðast víðar um Ísland. „Við munum halda áfram með þessa vegferð en undanfarið höfum við einnig verið að leggja meiri áherslu á að fræða ferðamenn um hvernig á að ferðast um Ísland á ábyrgan hátt. Við höfum fengið mjög góð viðbrögð við þessu og vildum því byggja á þeim árangri. Ferðamálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNWTO) hefur meðal annars valið eitt af verkefnum okkar, The Icelandic Pledge, sem fyrirmyndar aðgerð á ári Sjálfbærrar ferðaþjónustu hjá þeim.“ segir Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu.