Jólabjórinn kostar það sama í ár

Sala á jólabjór er hafin í Fríhöfninni og verðið er óbreytt frá því í fyrra.

Mynd: Patrick Fore/Unsplash

Þeir sem eiga leið um Fríhöfnina í Leifsstöð á næstunni geta kippt með sér jólabjór en sala á honum í Vínbúðunum hefst ekki fyrr en um miðjan nóvember. Í Fríhöfninni eru fáanlegar 10 mismunandi tegundir af jólaöli og þar af eru 8 sem einnig voru á boðstólum í fyrra. Verðið á þeim öllum er óbreytt frá því í fyrra samkvæmt athugun Túrista. Áfram er Egils Malt jólabjórinn ódýrastur en kippa af honum kostar 1.299 krónur en hins vegar er Giljagaur ekki lengur sá dýrasti. Einstök Winter hefur tekið við toppsætinu en kippa af honum er á 3.399 krónur. Önnur nýjung er Askasleikir frá Borg miðað við heimasíðu Fríhafnarinnar.

Líkt og verðkönnun Túrista í fyrra leiddi í ljós þá munar vanalega þriðjungi á útsöluverði Fríhafnarinnar og Vínbúðanna þegar kemur að jólabjór. Hins vegar verður úrvalið töluvert meira í síðarnefndu verslununum því þar verða á boðstólum meira en 50 tegundir. Það kemur svo í ljós þann 15. nóvember hvort verðmiðarnir á jólaölinu í Vínbúðunum verða þeir sömu og í fyrra líkt og raunin er í Fríhöfninni.

Eftir að reglum um tollfrjálsan varning flugfarþega var breytt þarsíðasta sumar þá mega viðskiptavinir Fríhafnarinnar nú taka með sér 18 lítra af bjór inn til landsins.

Uppfært: Í upphaflegri útgáfu kom fram að  Boli Doppelbock, Egils Gull jólabjór og Tuborg Julebrygg yrðu ekki á boðstólum og var það byggt vöruúrvalinu á heimasíðu Fríhafnarinnar. Þessar þrjár tegundir eru hins vegar væntanlegar í verslunina á næstunni.