Á þriðja þúsund Bretar til Akureyrar í byrjun árs

Sala á norðurljósferðum um Norðurland gengur vel í Bretlandi og sértaklega frá minni borgum. Búið er að fjölga ferðunum úr átta í fjórtán og til stendur að bjóða Norðlendingum upp á beint flug til Bretlands.

Norðurljósin hafa mikið aðdráttarafl. Mynd: Markadsstofa Nordurlands / Visit North Iceland

Í janúar og febrúar ætlar breska ferðaskrifstofan Super Break að bjóða upp á sérstakar norðurljósaferðir hingað til lands og verður flogið beint til Akureyrar frá Bretlandi. Sala á þessum þriggja og fjögurra nátta pakkaferðum hófst í sumarlok og þá stóð til að bjóða upp á 8 brottfarir frá jafn mörgum flugvöllum í Bretlandi. Eftirspurnin hefur hins vegar reynst það mikil að nú er búið að bæta við sex aukaferðum og í nokkrar þeirra er nú þegar uppselt að sögn Chris Hagan hjá Super Break. Í heildina verða sæti fyrir um 2577 farþega í ferðunum fjórtán til Íslands og segir Hagan að á næstunni verði tilkynnt um enn fleiri ferðir á næsta ári og eins fyrir 2019. Einnig stendur til að bjóða heimamönnum fyrir norðan upp á flug frá Akureyri til Bretlands í byrjun næsta árs en nánari upplýsingar um þær ferðir verði birtar fljótlega.

Frá Keflavíkurflugvelli er boðið upp á áætlunarflug til 11 breskra flugvalla en Super Break notast við fáa af þeim fyrir sínar ferðir til Akureyrar. Segir Chris Hagan að eftirspurnin eftir norðurljósaferðunum hafi líka reynst mest frá þeim flugvöllum sem hafa ekki á boðstólum áætlunarflug til Íslands. Til marks um það þá er í dag uppselt eða örfá sæti laus í tvær ferðir frá Humperside, Norwich og Bournemouth og bókunarstaðan er álíka góð í ferðirnar frá Newcastle og Leeds. Hins vegar er meira laust í brottfarirnar frá stóru flugvöllunum og ástæðuna telur Hagan vera þá að fólk á þeim svæðum geti nú þegar valið úr fjölda ferða til Íslands.

Markaðsstofa Norðurlands hefur verið Super Break innan handar við skipulagningu Íslandsferðanna og ljóst er að allir þeir bresku ferðamenn sem von er á í ársbyrjun verða mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna norðan heiða. Chris Hagan segir að gistinætur hópsins gætu orðið allt að 9 þúsund talsins en til samanburðar þá voru gistinætur útlendinga á norðlenskum hótelum samtals 10.451 í janúar og febrúar í ár samkvæmt tölum Hagstofunnar.