Hellingur af ódýrum flugmiðum til Barcelona

Hjá bæði Norwegian og WOW air er hægt að finna lág fargjöld til Barcelona á fjöldamörgum dagsetningum.

barcelona Tyler Hendy
Mynd: Tyler Hendy/Unsplash

Það hefur verið róstursamt í höfuðborg Katalóníu síðustu mánuði. Mannskætt hryðjuverk var framið á Römblunni um miðjan ágúst og síðustu vikur hafa einkennst af mótmælum í tengslum við atkvæðagreiðslu um sjálfstæði Katalóníu. Ferðamenn halda þó áfram að streyma til Barcelona sem sést til að mynda á því hversu hátt hlutfall af gistingu í borginni er uppbókað næstu helgar. Af fargjöldunum héðan að dæma þá er eftirspurnin eftir flugi milli Keflavíkurflugvallar og El Prat í Barcelona samt ekki mikil. Þannig má finna farmiða, báðar leiðir, með Norwegian héðan til Barcelona á um fimmtán þúsund krónur í nær allar ferðir félagsins næstu vikur. Hjá WOW air eru lægstu fargjöldin aðeins hærri en þar eru líka flestar brottfarir á lágu verði.

Síðustu ár hefur Vueling boðið upp á heilsársflug héðan til Barcelona en félagið gerir hlé á Íslandsflugi sínu yfir háveturinn að þessu sinni. Norwegian og WOW eru því ein um flugleiðina næstu mánuði en sem fyrr segir þá hefur brotthvarf Vueling síður en svo orðið til þess að fargjöldin hafi hækkað.

Um mánaðarmótin breytir WOW air brottfarartímum í flugi sínu til Barcelona og í stað þess að leggja í hann frá Keflavíkurflugvelli klukkan 18 þá fara þoturnar í loftið níu að morgni. Þá er lent í Barcelona um kaffileytið en ekki um miðnætti eins og hingað til hefur tíðkast. Með þessari breytingu leggst af næturflug WOW frá Barcelona því nú verður flogið frá þaðan klukkan hálf fjögur og lent um kvöldmatarleytið á Keflavíkurflugvelli. Í tilkynningu frá WOW segir að þetta sé gert til að koma betur til móts við þarfir farþega sem vilja taka daginn snemma. Þotur Norwegian, á leið héðan til Barcelona, leggja í hann í hádeginu en brottför frá El Prat til Íslands er klukkan átta að morgni. Hér er hægt að bera saman fargjöld félaganna.

Smelltu til að skoða 3 hóteltilboð í Barcelona og hér til að bera saman verð á gistingu í borginni