Portúgal er áfangastaður ársins í Evrópu

Ferðaþjónustan í Portúgal er í sókn þó vöxturinn hafi verið hægari en hjá nágrönnunum á Spáni.

Portúgal sópaði að sér viðurkenningum þegar „Óskarsverðlaun ferðageirans”, World Travel Awards, voru afhent um helgina. Landið var ekki aðeins kjörinn áfangastaður ársins í Evrópu heldur líka það besta fyrir strandferðalög og eyjafrí. Eins þykir ekkert land í álfunni betri viðkomustaður fyrir skemmtiferðaskip og eins var Vila Joya í Albufeira valið besta hönnunarhótel Evrópu. Ferðamálaráð landsins var svo kjörið það besta í álfunni.

Ferðaþjónustan í Portúgal hefur verið í sókn en árlega heimsækja landið um 21 milljón ferðamanna. Og menn eru bjartsýnir áframhaldið enda hefur framboð á flugi til Portúgals aukist töluvert þó ennþá sé ekki flogið beint þangað frá Íslandi. Íslenskar ferðaskrifstofur hafa hins vegar boðið upp á leiguflug til Lissabon síðustu ár. Ennþá eru strandstaðirnir við Algarve þó fjarri sumarprógrömmum ferðaskrifstofanna en á því kann að vera breyting því hinar miklu vinsældir Spánar hafa orðið til þess að verðlag þar fer hækkandi líkt og Túristi greindi nýverið frá. Einhverjir íslenskir ferðafrömuðir gætu því farið að leita á ný mið.

Þess má svo geta að Portúgal var líka valinn áfangastaður ársins í vikunni þegar Dönsku ferðaverðlaunin voru afhent.