Ráðherra ferðamála sver af sér hækkun á virðisaukaskatti

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir segir það ekki hafa verið sína hugmynd að tvöfalda virðisaukaskatt á ferðaþjónustu. Aðstoðarmaður fjármálaráðherra segir málið mega rekja til formanna stjórnarflokkanna.

„Það er sagt að einn maður hafi bjargað okkur upp úr hruninu og það er ferðamaðurinn,“ segir Þórdís Kolbrún, ráðherra ferðamála. Myndir: Stjórnarráðið og Iceland.is

Áform fráfarandi ríkisstjórnar um að tvöfalda virðisaukaskatt á ferðaþjónustu hafa verið brennidepli allt frá því að þau voru kynnt í vetrarlok. Þá sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, að ekki væru lengur rök fyrir því að ferðaþjónustan fengi sérstakar undanþágur varðandi virðisaukaskatt. Það kvað hins vegar við nýjan tón í ræðu Þórdísar Kolbrúnar á Ferðamálaþingi í vikunni þar sem hún sagði skattabreytinguna ekki hafa verið draumatillögu frá sínum bæjardyrum séð. „Þessi áform um að færa ferðaþjónustuna í hið almenna þrep voru ekki mín hugmynd. Þau urðu ekki til á mínu borði,“ sagði Þórdís svo í viðtali við Fréttablaðið á föstudaginn.

Auk Þórdísar Kolbrúnar var það Benedikt Jóhannessson, fjármálaráðherra, sem mælti með og varði hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu. Aðspurður um hvort fjármálaráðherra sé, öfugt við ferðamálaráðherrann, ennþá sannfærður um ágæti hækkunarinnar þá segir Gylfi Ólafsson, aðstoðarmaður Benedikts Jóhannesssonar, að málið eigi uppruna sinn hjá leiðtogum stjórnaflokkanna. „Tillagan varð til á borði formanna stjórnarflokkanna þar sem skoðaðar voru ýmsar leiðir til að setja aukinn pening í velferðarmál og innviðauppbyggingu, en á sama tíma skila afgangi til niðurgreiðslu skulda og einfalda skattkerfið. Fjármálaráðherra hafði svo það hlutverk að útfæra og kynna niðurstöðuna,” segir í svari Gylfa. „Það var alltaf ljóst að niðurstaðan yrði hvorki áferðarfalleg né óumdeild.”

Upphaflega stóð til að færa ferðaþjónustuna upp í hæsta þrep virðisaukaskatts um mitt næsta ári en því var svo frestað fram til ársbyrjunnar 2019. „Þegar fjárhagur ríkisins breyttist – einkum vegna uppgreiðslu erlends láns – varð úr að hægt var að fresta gildistöku breytingarinnar til 2019 og það er sú tillaga sem unnið er með nú. Hagfræðingar og erlendar stofnanir sem skoðað hafa tillögurnar eru sammála um að afnám skattaívilnunnar ferðaþjónustunnar sé skref í rétta átt. Ýmsar aðrar leiðir hafa verið skoðaðar og verða skoðaðar, þ.m.t. komugjöld. Þá eru í undirbúningi mótvægisaðgerðir sem sérstaklega eiga að taka á vanda byggða sem ekki hafa séð sama vöxt í ferðaþjónustu og höfuðborgarsvæðið,” segir Gylfi.