Sex sjarmatröll sem Starbucks á ekki roð í

Útibú Starbucks eru öll keimlík og það er því lítil upplifun fyrir ferðamenn að setjast inn á þannig stað. Túristi mælir með þessum kaffihúsum fyrir þá sem vilja krydda fríið.

kaffi 860

The Barn, Berlín

Auguststrasse er ein skemmtilegasta gatan í Mitte hverfinu. Hér blómstra fjölbreyttir matsölustaðir og sérverslanir sem laða til sín Berlínarbúa og ferðamenn frá morgni til kvölds. Einn þessara staða er The Barn, lítið kaffihús með örlitlum amerískum brag eins og nafnið gefur til kynna. Starfsfólkið vandar sig við að útbúa kaffi og te og hér er enginn ys og þys. Gulrótakaka hússins, með hökkuðum möndlum í kreminu, er ljúffeng og samlokurnar, sem eru smurðar á staðnum, eru mjög girnilegar.

Jimmy´s Coffee, Toronto

Í fjölmennustu borg Kanada eru um fimmtíu Starbucks kaffihús. Jimmy´s Coffee er að finna á sex stöðum í borginni, við hinn skemmtilega Kensington Market (191 Baldwin) og 107 Portland Street. Hér er kaffið í hávegum haft og úrvalið af sætabrauði er það gott að það er óþarfi að eyða matarlyst í hollustumuffin hússins. Það er frítt net hjá Jimmy og svo má líka fá lánað hleðslutæki í símann.

The Market, Denver

Larimer Street er sennilega þekktasta gatan í Denver og þangað mæta þeir sem vilja fá sér gott í svanginn. The Market er eitt af flaggskipum götunnar og það leynir sér ekki að í þar eru fastagestirnir margir. Sumir ganga inn um hurðina, kinka kolli til þjónustufólksins og setjast svo á sitt borð. Stundarkorni síðar mætir svo gengilbeina með „skammtinn“. Fremsti hluti staðarins er kaffihús og þar er færðu kaffi og með því en fyrir innan er að hægt að panta heita rétti allan daginn.

Peclard, Zurich

Það er leit að fallegra kaffihúsi í hinum sjarmerandi gamla bæ í Zurich. Peclard er skipt upp í þrjá ólíka sali og tvö útisvæði. Gestirnir geta því sest í mjúkan sófa í rauðu rokókóstofunni á annarri hæð, á klassískt kaffihús frá fyrri hluta síðustu aldar á neðstu hæðinni eða jafnvel út í fallegan bakgarð. Peclard er við Napfgasse 4 og hundrað metrum frá er eitt af útibúum Starbucks. En þrátt fyrir fínheitin á því fyrra þá kosta veitingarnar þar ekki mikið meira en hjá bandarísku keðjunni.

Brew lab, Edinborg

Kaffi er dauðans alvara á þessum nýlega kaffibar ekki svo langt frá Edinborgarkastala (6 South College Street). Hér notast menn við Slayer kaffivél en þær þykja fínasta fínt í kaffigeiranum og eiga að geta kallað fram meira bragð og aðra áferð.

Brot und Seine Freunde, Frankfurt

Það er ekki úr mörgum sætum að velja viljurðu setjast niður með kaffi og kökuna. Á Brot und Seine Freunde mæta því margir til að sækja sér nýsmurða samloku, heimabakaðar kökur og brauð og auðvitað þrusu gott kaffi. Á sumrin geta ferðamenn sest fyrir utan og fylgst með fólkinu sem á leið um Konrmarkt götuna en þar eru nokkur kaffihús og veitingastaðir.