Síðustu ferðir Airberlin til Íslands

Um mánaðarmótin hættir Airberlin starfsemi og þar sem fækkar valmöguleikunum fyrir þá sem eru á leið milli Íslands og Þýskalands.

Mynd: Airberlin

Löngu áður en ferðaþjónustan á Íslandi fór að blómstra hóf Airberlin að fljúga hingað reglulega frá nokkrum borgum í Þýskalandi yfir sumarmánuðina. Síðar bættist við heilsársflug frá Berlín og Dusseldorf en nú er sögu flugfélagsins hér á landi að ljúka því í dag er ekki hægt að bóka far með félaginu frá Íslandi frá og með 28. október. Þessi niðurstaða kemur ekki á óvart enda fóru forsvarsmenn flugfélagsins fram á greiðslustöðvun í ágúst og síðan þá hefur framtíð þess verið óviss. Nú er komið á daginn að Lufthansa og easyJet munu taka yfir hluta af starfsemi Airberlin en annað leggst af, þar á meðal flugið til Íslands. Alla vega eins og staðan er núna því hvorki Lufthansa eða dótturfélag þess, Eurowings, hafa boðað Íslandsflug frá Berlín eða Dusseldorf í vetur. Það sama er upp á tengingnum hjá easyJet en breska lággjaldaflugfélagið er með starfsstöð á Schönefeld flugvelli í austurhluta Berlínar.

Hins vegar mun Icelandair hefja flug til Berlínar um næstu mánaðarmót en þau áform voru tilkynnt fljótlega eftir að forsvarsmenn Airberlin fóru fram á greiðslustöðvun. En líkt og Túristi greindi frá þá gætu tækifæri leynst í falli Airberlin fyrir íslensku félögin tvö, ekki bara þegar kemur að því að flytja fólk milli Berlínar og Íslands heldur einnig á markaðnum fyrir ferðir milli þýsku höfuðborgarinnar og N-Ameríku. En Airberlin starfrækti frá Berlín flugleiðir til 5 bandarískra borga sem allar eru hluti af leiðakerfi WOW air. En íslenska lággjaldaflugfélagið hefur flogið til Berlínar allt frá stofnum og aukist verulega síðustu ár.

Hér má sjá allar þær borgir sem flogið verður til í vetur