Síðustu ferðirnar til Bristol og Cork

Ef áfangastaðurinn ber sig ekki þá er farið annað segir Svanhvít Friðriksdóttir talskona WOW air en félagið fer nú sínar síðustu ferðir til tveggja nýlegra áfangastaða.

wow gma Friðrik Örn Hjaltested
Mynd: WOW air

Frá því í maí í fyrra hafa þotur WOW air flogið þrisvar sinnum í viku til Bristol en í dag fór félagið sína síðustu ferð til bresku borgarinnar. Að sögn Svanhvítar Friðriksdóttur, talskonu WOW air, þá gekk flugið til Bristol frekar vel í upphafi en í kjölfar Brexit hafi afkoman af því versnað enda hafi það aðallega verið breskir farþegar sem nýttu sér áætlunarferðirnar. „Því var tekin ákvörðun að nýta vélar okkar í aðra áfangastaði t.d. bæta við þessum fimm nýju áfangastöðum okkar í Bandaríkjunum.“

Samkvæmt tölum frá Flugmálastjórn Bretlands nýttu 3237 farþegar sér flugið milli Íslands og Bristol í ágúst sl. og í þeim mánuði fór WOW air 13 ferðir héðan til Bristol og jafnmargar tilbaka samkvæmt talningu Túrista. Að jafnaði hafa því 125 farþegar nýtt sér hverja flugferð í þeim mánuði en í Airbus A320 þotunum, sem WOW nýtir í flugið, eru 174 sæti og nýtingin hefur því verið rétt um 72%.

Flug milli Íslands og Bristol leggst hins vegar ekki af með brotthvarfi WOW air því hið breska easyJet heldur flugleiðinni úti yfir vetrarmánuðina og verður fyrsta ferð þessarar vertíðar farin á sunnudag. Í bæjarblaðinu Bristol Post var fjallað um þessar breytingar í Íslandsfluginu nú í vikunni en þar er þó megin áherslan lögð á þá staðreynd að með WOW air fari tenging borgarinnar við N-Ameríku. Hins vegar er bent á að borgarbúar eigi þó áfram þann kost að fljúga með easyJet til Íslands og þaðan til Bandaríkjanna og Kanada. En þotur easyJet frá Bristol lenda á Keflavíkurflugvelli um hádegi og fyrstu brottfarirnar þaðan til Bandaríkjanna eru um kaffileytið. Tengitíminn á Keflavíkurflugvelli er því á bilinu 4 til 6 tímar, bæði á út- og heimleið.

Bristol er ekki eina borgin sem WOW hættir flugi til nú í lok október því félagið leggur einnig flugleiðina til írsku borgarinnar Cork en þangað hóf WOW að fljúga í júní síðastliðnum. Svanhvít segir að flugið þangað hafi aldrei staðið undir væntingum . „WOW air hugsar þetta eins og önnur lággjaldaflugfélög. Ef áfangastaðurinn er ekki bera sig þá er fljótt farið annað,“ segir Svanhvít.

Á næsta ári hefur WOW air flug til bandarísku borganna Dallas, Cleveland, Detroit, St. Louis og Cincinnati og félagið fór nýverið jómfrúarferð sína til Tel Aviv í Ísrael.