Strandsiglingar Hurtigruten um Ísland njóta vinsælda

Farþegaskip Hurtigruten hafa verið tíðir gestir í íslenskum höfnum í ár og Ísland verður áfram spennandi áfangastaður fyrir hið norska skipafélag svo lengi sem hægt verður að bjóða farþegunum „ekta og nána upplifun fjarri massatúrisma”.

MS Fram í höfn í Reykjavík. Mynd: Hurtigruten/Sandra Walser

Hið norska Hurtigruten býður ekki aðeins upp á strandsiglingar um norska firði því skip félagsins halda reglulega út í heim. Þar á meðal til Íslands og forsvarsmenn Hurtigruten sjá tækifæri í að fjölga ferðunum hingað til lands. „Áætlun Hurtigruten fyrir Ísland í ár var umsvifameiri en nokkru sinni áður. Nýjasta skipið okkar, MS Spitsbergen, sigldi til að mynda við Ísland í samtals einn og hálfan mánuð, þar af þrjár heilar hringferðir. Á þessum tíma hafði MS Spitsbergen um 50 viðkomur í hinum ýmsu höfnum á Íslandi áður en skipið hélt svo áfram til Grænlands og í siglingar um norðurslóðir Kanada. Annað skip, MS Farm, fór einnig nokkrar ferðir til Íslands í sumar,” segir Svein Harald Lian, talsmaður Hurtigruten.

Þessar Íslandssiglingar Hurtigruten hafa notið mikilla vinsælda og segir Svein Harald að siglt hafi verið með „full skip” í allt sumar. „Hjá okkur þýðir það hins vegar að aðeins um 200 manns hafi verið um borð því öfugt við skemmtiferðaskipin þá eru könnunarskipin okkar lítil og sérstaklega hönnuð til að komast sem næst upplifununum, náttúrunni og fólkinu.” Og það eru ekki aðeins Norðmenn sem nýta sér strandsiglingar Hurtigruten um Ísland. „Um borð í leiðöngrunum okkar er fólk frá hinum ýmsu löndum en blandan er mismunandi eftir ferðum. Í ár var hlutfall norskra farþega á bilinu 15-20 prósent,” segir Svein Harald. „Ég held að allir Norðmenn sem heimsækja Ísland finni fyrir sterkum tengslum við Íslendinga í ljósi sameiginlegrar sögu þjóðanna tveggja”.

Sem fyrr segir hafa Íslandssiglingar Hurtigruten aldrei verið fleiri en þær voru í ár og dagskrá næsta sumars gerir ráð fyrir ennþá fleiri ferðum. „Við höldum áfram að bæta í á næsta ári því þá mun MS Farm fara í tvær 12 daga siglingar hringinn í kringum Ísland og skipið mun einnig, ásamt MS Spitsbergen, fara nokkrar aðrar ferðir yfir sumarið. Prógrammið fyrir árið 2019 er ekki klárt en það sumar tökum við í notkun nýtt skip, MS Roald Amundsen, sem með sína tvinnvél og aðrar tímamótalausnir mun verða umhverfisvænasta könnunarskip heims. Sú staðreynd skapar okkur og gestunum ennþá fleiri möguleika en það er of snemmt að segja til um hvert MS Roald Amundsen mun sigla. En Ísland er spennandi áfangastaður fyrir Hurtigruten svo lengi sem við getum boðið upp ekta og nána upplifun fjarri massatúrisma.”

Viðkomustaðir Hurtigruten í hinni 12 daga ferð Ísland.

Tólf daga sigling með Hurtigruten um Ísland kostar í dag um 540 þúsund krónur á mann og allt fæði er innifalið í verðinu en ekki flugmiði til Íslands þar sem siglingin hefst. Strandsigling með Hurtigruten er þar með nokkru dýrari kostur en klassísk rútuferð um Ísland. Algengt verð á 7 til 10 nátta ferðum um landið er 250 til 400 þúsund en sigling Hurtigruten tekur hins vegar 12 daga.