Sjö milljónasti farþeginn fór um Keflavíkurflugvöll

Nú þegar hafa fleiri farið um Keflavíkurflugvöll en allt árið í fyrra og það stefnir í að fjöldinn verði fjórfaldur á við það sem hann var allt árið 2010.

Mynd: Isavia

Starfsfólk Isavia fagnaði á dögunum sjö milljónasta farþeganum sem fór um Keflavíkurflugvöll í ár er hann kom til landsins frá Belfast með Easy Jet. Þau heppnu voru Chris og Joanne Bradley og voru þau leyst út með gjöfum af verslunarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Voru þau hjónin afar ánægð með móttökurnar en þau sögðust spennt að upplifa öðruvísi frí en að liggja á sólbekk við sundlaug. Þau eru á leið í ferðalag um Ísland í fjóra daga og ætla sér að fara Gullna hringinn og í Bláa Lónið auk þess sem þau vonast til þess að sjá norðurljós samkvæmt því segir í tilkynningu frá Isavia.

Talning farþega um Keflavikurflugvöll skiptist í komufarþega, brottfararfarþega og skiptifarþega og skiptist fjöldinn um það bil jafnt í þrennt en hlutfall skiptifarþega hefur verið að aukast. Það var t.d. 40% í síðasta mánuði sem er aukning um 2 prósentustig frá september í fyrra. Þegar sjömilljónasti farþeginn fór um völlinn var skiptingin þannig að brottfararfarþegarnir voru 2.253.992, komufarþegarnir 2.319.489 og 2.426.519 skiptifarþegar.

Á síðasta ári náði farþegafjöldinn 6,8 milljónum en í ár er búist við að fjöldinn verði um 8,7 milljónir og því verður bæði fagnað núna þegar sjö milljóna múrnum er náð og einnig þegar fjöldinn fer yfir átta milljónir í desember næstkomandi.