Spenningur fyrir starfi ferðamálastjóra

Embætti ferðamálastjóra var auglýst laust til umsóknar í síðustu viku. Dragist það á langinn að mynda nýja ríkisstjórn gæti það orðið eitt síðasta verk fráfarandi ráðherra ferðamála að skipa í stöðuna.

Ferðamenn við Námaskarð. MYND: ICELAND.IS

„Ráðuneytið finnur fyrir miklum áhuga á embætti ferðamálastjóra og væntir þess að töluverður fjöldi umsókna berist fyrir lok umsóknarfrests þann 31. október,“ segir Sigrún Brynja Einarsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu ferðamála í atvinnuvegaráðuneytinu. En ráðuneytið auglýsti stöðu ferðamálastjóra lausa til umsóknar í síðustu viku og hyggst Ólöf Ýrr Atladóttir, sem hefur gegnt embættinu frá ársbyrjun 2008, ekki sækja um á ný líkt og Túristi greindi frá. Skipunartími nýs ferðamálastjóra hefst þann 1. janúar og það gæti orðið eitt síðasta verk Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, fráfarandi ráðherra ferðamála, að skipa í stöðuna ef ný ríkisstjórn verður ekki mynduð fljótlega eftir kosningar.

Þegar Ólöf Ýrr var ráðin ferðamálastjóri bárust fimmtíu umsóknir og mikill áhugi á starfinu er því ekki nýmæli. Að þessu sinni eru hæfniskröfurnar mun ítarlegri en þegar staðan var síðast auglýst, í árslok 2007. Núna er til að mynda ekki nóg að hafa háskólagráðu því verðandi ferðamálastjóri verður að einnig að hafa meistarapróf sem nýtist í starfinu. Umsækjendur verða einnig beðnir um framtíðarsýn sína fyrir íslenska ferðaþjónustu. Þeir verða einnig að búa yfir frumkvæði og metnaði til að sýna árangur og krafti til að hrinda verkum í framkvæmd. Uppbyggilegt viðmót, leiðtogahæfileikar og þekking á einu Norðurlandamáli er einnig kostur samkvæmt starfsauglýsingunni.

Þess má geta að ráðherra ferðamála fól nýverið Elíasi Bj. Gíslasyni, forstöðumanni hjá Ferðamálastofu, að gegna starfi ferðamálastjóra til áramóta þar sem Ólöf Ýrr er komin í námsleyfi.