Stokka upp Spánarflugið

Icelandair hættir flugi til Barcelona og bætir í staðinn við ferðum til Madrídar. Þar með verður spænska höfuðborgin eini áfangastaður flugfélagsins á Spáni.

icelandair 767 757
Mynd: Icelandair

Fjögur flugfélög buðu upp á reglulegar ferðir héðan til Barcelona síðastliðið sumar og þar af var Icelandair með vikulegar brottfarir. WOW air, Norwegian og Vueling flugu hins vegar þangað tvisvar til fjórum sinnum í viku og í júlí síðastliðnum voru t.d. farnar 41 áætlunarferð frá Keflavíkurflugvelli til El Prat í Barcelona.

Ferðirnar til Madrídar voru helmingi færri, samkvæmt talningu Túrista, en fluginu þangað sinna aðeins Icelandair og Iberia Express. Næsta sumar mun Icelandair hins vegar bæta í Madrídarflugið og leggja niður flugleiðina til Barcelona í staðinn. Guðjón Arngrímsson, talsmaður Icelandair, segir ástæðuna vera þá að félagið sjái tækifæri í auknu flugi til Madrídar og þaðan komi til að mynda fleiri spænskir farþegar en frá Barcelona.

Með þessari breytingu verður Madríd eini áfangastaður Icelandair á Spáni en félagið hætti fyrir fimm árum síðan að bjóða upp á flug til Alicante.

Þess má geta að Norwegian flýgur tvisvar í viku milli Íslands og Madrídar yfir vetrarmánuðina en ekki yfir sumarið.