„Það er ekki mikil sól hérna og bjórinn verður aldrei ódýr.”

Ráðherra ferðamála bendir á hið augljósa í samanburði á Íslandsferðum og sólarlandaferðum til Spánar. En bæði hún og fyrrum forsætisráðherra hafa horfið frá fyrri hugmyndum sínum um aukna gjaldtöku eða hærri álögur á ferðaþjónustu.

Mynd: Stjórnarráðið og Iceland.is

Umræður um ferðamál eru ekki ýkja áberandi í aðdraganda kosninga. Í Fréttablaðinu á föstudaginn ræddu þó frambjóðendurnir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson frá Miðflokknum og Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra, málefni atvinnugreinarinnar og þar benti Þórdís Kolbrún á hið augljósa. „Það verður alltaf dýrt að koma til Íslands. Ferðamenn eru ekki að koma hingað eins og þeir koma til Alicante til að fá ódýran bjór og liggja í sólinni. Það er ekki mikil sól hérna og bjórinn verður aldrei ódýr. Við verðum bara að ganga út frá því,“ sagði Þórdís Kolbrún sem farið hefur fyrir ferðamálanum í fráfarandi ríkisstjórn.

En áform þeirrar ríkisstjórnar um að færa ferðaþjónustuna upp í efsta þrep virðisaukaskattsins hafa verið umdeild. Og í fyrrnefndri Fréttablaðsgrein segir Sigmundur Davíð vera þeirra skoðunar að ekki sé rétt að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu núna, m.a. vegna sterkrar krónu. „Menn hafa eytt mörg árum í að ræða um það hvernig eigi að taka gjald af ferðamönnum og þá  er kannski verið að tala um milljarð hér og milljarð þar en líta á sama tíma fram hjá því að ferðamenn eru auðvitað að skila milljörðum og jafnvel tugum milljarða í ríkissjóð. Þetta er fjármagn sem ekki kæmi ef það væri ekki þessi mikli straumur ferðamanna,“ sagði Sigmundur. En í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem hann veitti forystu var meginfókus á frumvarp um náttúrupassa sem síðar var slegið út af borðinu. Og sömu örlög gætu beðið hækkunar á virðisaukaskatti en stuðningur við hana virðist ekki víðtækur meðal frambjóðenda, m.a. hjá fráfarandi ferðamálaráðherra sem sver sig nú frá hugmyndinni.