Sagan af Þjóðarþotunni gæti endurtekið sig

Flugvél Airberlin sem nú stendur á hlaðinu við Flugstöð Leifs Eiríkssonar er ekki eina farþegaþotan sem hið opinbera hefur tekið upp í skuld.

Í þarsíðustu viku var Airbus A320 farþegaþota Airberlin kyrrsett á Keflavíkurflugvelli vegna vangoldinna gjalda og þar er flugvélin ennþá þrátt fyrir að flugfélagið sé nú hætt starfsemi og hluti flota þess hafi verið seldur til easyJet um helgina. Að sögn Guðna Sigurðssonar, talsmanns Isavia, þá hafa átt sér samskipti milli aðila málsins en þau hafa ekki ennþá leitt til niðurstöðu. Áfram er þotan því í umsjón Isavia og er málið farið að minna á þá stöðu sem kom upp árið 1989 þegar hið opinbera leysti til sín farþegaflugvél Arnarflugs. Ríkið hafði gengist í ábyrgð fyrir kaupum flugfélagsins á þotunni en vegna rekstrarerfiðleika var flugvélin tekin yfir í febrúar 1989. Í ársbyrjun 1990 handsöluðu svo þáverandi fjármálaráðherra, Ólafur Ragnar Grímsson, og Arngrímur Jóhannsson, forstjóri flugfélagsins Atlanta, kaupin á þotunni og nam söluverðið um 440 milljónum á þáverandi gengi. Fjármögnun kaupanna drógst hins vegar á langinn meðal annars vegna þess að skoðunarvottorð þotunnar týndust.

Þjóðarþotan var töluvert í umræðunni árin 1989 til 1991 og voru forsvarsmenn Arnarflugs t.a.m. mjög ósáttir við framgöngu fjármálaráðherra í málinu. Fullyrtu þeira að Ólafur Ragnar hefði valdið Arnarflugi miklu tjóni með því að hafna kauptilboði fyrirtækisins í þotuna og einnig stórskaðað ríkissjóð með því að selja hana hafa ódýrt til Atlanta. Hver örlög Airberlin þotunnar við Leifsstöð verða mun tíminn leiða í ljós en virði hennar mun þó vera töluvert hærra en sem nemur skuld þýska flugfélagsins við Isavia.

Úrklippur af Tímarit.is