Wizz Air þriðja umsvifamesta félagið á Keflavíkurflugvelli

Sem fyrr bera Icelandair og WOW air uppi umferðina um Keflavíkurflugvöll en ungverska lággjaldaflugfélagið Wizz Air hefur bætt verulega við Íslandsflugið í ár og fór upp fyrir easyJet og SAS í september.

Flugfreyja Wizz Air Mynd: Wizz Air

Að jafnaði voru farnar 90 áætlunarferðir á dag frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar í september sem er viðbót um 17 brottfarir á dag frá sama tíma í fyrra samkvæmt talningum Túrista. Af öllum þessum ferðunum stóð Icelandair undir helmingi og WOW air tæpum 30 prósentum eins og súluritið sýnir. Þar má líka sjá hvernig hlutdeild Icelandair hefur dregist saman á sama tíma og vægi WOW hefur aukist milli ára. Á eftir íslensku félögunum koma svo þrjú erlend flugfélög með álíka margar ferðir en að þessu sinni er það ungverska lággjaldaflugfélagið Wizz Air sem er í þriðja sæti með 74 ferðir, þremur meira en easyJet. Í september í fyrra var Wizz Air í áttunda sæti.

Wizz Air flýgur í dag til Íslands frá 8 borgum í Austur-Evrópu og segir Gabor Vasarhelyi, í svari til Túrista, að eftirspurnin eftir flugi til Íslands hafi verið mikil í ár. „Fyrstu átta mánuði ársins flaug Wizz Air með 140 þúsund farþega á þessum leiðum, það jafngildir 186% vextir á milli ára.“ Til samanburðar má geta að Icelandair flaug með 2,8 milljónir farþega fyrstu átta mánuðina og með WOW air 1,9 milljónir.