2700 flugsæti til Póllands í hverri viku

Hið ungverska Wizz Air heldur áfram að bæta í flugið milli Íslands og Póllands og talskona þess segir flugfélagið sífellt vera að leita nýrra tækifæra.

wizz budapest
Á næsta ári mun Wizz Air halda uppi áætlunarflugi hingað frá 9 evrópskum borgum. Mynd: Wizz Air

Lengi vel bauð Iceland Express upp á flug til bæði Varsjár og Kraká í Póllandi og borgirnar voru líka hluti að leiðakerfi WOW air þegar félagið hóf starfsemi. Nú flýgur WOW air aðeins til Varsjár tvisvar í viku yfir sumarmánuðina en framboð á flugi til Póllands hefur engu að síður margfaldast síðustu ár. Ástæðan er sú að ungverska lággjaldaflugfélagið Wizz Air flýgur í dag til Íslands frá fjórum pólskum borgum allt árið um kring og sú fimmta, Poznan, bætist við í vor.

„Næsta sumartímabil, frá lokum mars til enda október, munu við í heildina hafa á boðstólum 85.500 sæti á þessum fimm pólsku flugleiðum okkar frá Reykjavík. Að jafnaði eru þetta því 2700 sæti í viku hverri,“ segir Gabor Vasarhelyi, talskona Wizz Air, í svari til Túrista. Aðspurð segist húns ekki geta sagt til um hvort framboðið muni aukast enn frekar. „Við getum þó staðfest að í tengslum við mikinn vöxt Wizz Air þá erum við sífellt að leita tækifæra til að bæta við flugum og þannig koma til móts við eftirspurnina frá viðskiptavinum okkar.“

Þessar stórauknu flugsamgöngur hafa orðið til þess að pólskum farþegum á Keflavíkurflugvelli hefur fjölgað verulega í ár eða um nærri 22 þúsund frá janúar til október samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Nemur vöxturinn 67,5% en hafa ber í huga að Pólverjar sem búa á Íslandi í lengri eða skemmri tíma hafa verið flokkaðir sem erlendir ferðamenn. En miðað við gistináttatölur Hagstofunnar þá eru vísbendingar um að stór hluti pólsku flugfarþeganna á Keflavíkurflugvelli séu búsettir hér á landi. Til að mynda fækkaði hótelnóttum Pólverja á Íslandi um 14% í september en á sama tíma fjölgaði pólskum flugfarþegum í Leifsstöð um nærri 75%.

Sem fyrr segir hefur Wizz Air flug héðan til Poznan í Póllandi í vor en auk þess býður félagið upp á reglulegar ferðir frá Keflavíkurflugvelli til pólsku borganna Varsjár, Gdansk, Katowice og Wroclaw. Þotur Wizz air fljúga einnig allt árið um kring til Íslands frá Búdapest, Prag, Vilnius og Riga. Þess má geta að lengi vel þurftu farþegar Wizz Air að greiða sérstaklega fyrir að taka með sér hefðbundinn handfarangur um borð en stjórnendur flugfélagsins lögðu þá gjaldtöku niður um síðustu mánaðarmót. Farþegar sem aðeins ferðast með handfarangur geta því í dag komist af með því að bóka aðeins flugsæti en þau ódýrustu til Poznan kosta t.d. rétt um 5 þúsund krónur með Wizz Air.