56 ferðir í viku til New York

Í vor hefur WOW air flug til John F. Kennedy flugvallar í og fjölgar ferðunum til Newark. Þar með munu 4 flugfélög skipta á milli sín 56 ætlunarferðum í viku milli Íslands og New York.

newyork timessquare Ferdinand Stöhr
Þeir sem setja stefnuna á New York á næsta ári hafa úr mörgum ferðum að velja. Mynd: Ferdinand Stöhr

Fyrir tæpu ári síðan hóf WOW air að fljúga til New York og þá til Newark flugvallar í New Jersey. Næsta vor bætast svo við áætlunarferðir til John F. Kennedy flugvallar í Queens og um leið fjölgar brottförunum til Newark. Samanlagt mun WOW air bjóða upp á 20 flug á viku á milli Íslands og New York sumarið 2018. „Með því að bæta JFK flugvelli við svo og að nánast tvöfalda tíðnina á Newark flugvöll erum við að stórauka framboð okkar sem mun styrkja leiðarkerfið okkar enn frekar.  Einnig höfum við fundið fyrir mun meiri viðskiptafarþegum undanfarið og aukin tíðni er liður í að þjónusta þeirra þarfir enn betur,“ segir Skúli Mogensen forstjóri WOW air, í tilkynningu.

Viðbótin hjá WOW air er þó ekki sú eina sem bætist í flugið milli Íslands og New York á næsta ári því þá ætlar United að spreyta sig á Íslandsflugi frá Newark flugvelli. Þetta er í fyrsta skipti sem bandaríska flugfélagið býður upp á áætlunarflug til Íslands en líkt og kom fram í viðtali Túrista, við upplýsingafulltrúa United, þá hefur farþegum í flugi milli Íslands og Bandaríkjanna aukist verulega. Auk þess fljúga Icelandair og Delta héðan til New York og farþegar á Keflavíkurflugvelli geta því valið úr 56 áætlunarferðum í viku hverri til heimsborgarinnar næsta sumar.