Áætlun í bígerð ef íslensku flugfélögin lenda í erfiðleikum

Ferðaþjónustan er undirstöðuatvinnugrein á Íslandi en hún er mjög háð tryggum flugsamgöngum. Innan stjórnarráðsins er á byrjunarstigi vinna við að meta nauðsyn þess að vera með áætlun ef íslensku millilandaflugfélögin lenda í rekstrarvanda.

Curren Podlesny
Gera má ráð fyrir að ríflega helmingur allra þeirra útlendinga sem sækja Ísland heim fljúgi hingað með íslensku flugfélögunum. Mynd: Curren Podlesny/Unsplash

Ísland er háðara ferðaþjónustu efnahagslega séð en flest önnur lönd og greinin hefur mun meiri áhrif á lífskjör hér á landi en annars staðar samkvæmt greiningu hagfræðideildar Landsbankans sem birt var í haust. Þar segir jafnframt að uppgangur ferðaþjónustunnar síðustu ár byggi að miklu leyti á stórauknu framboði á flugi til landsins. Þar eru Icelandair og WOW air í aðalhlutverki með þrjár af hverjum fjórum flugferðum til og frá Keflavíkurflugvelli samkvæmt talningum Túrista og hvergi í Evrópu er vægi heimaflugfélaganna eins hátt samkvæmt greiningu OAG. Ekki er útlit fyrir að þetta hlutfall breytist mikið á næsta ári miðað við þær flugáætlanir sem kynntar hafa verið.

Í fyrrnefndri greiningu Landsbankans er þeirri spurningu velt upp hvort Icelandair og WOW air séu orðin kerfislega mikilvæg fyrir efnahagslegan stöðugleika á sama hátt og stærstu bankar landsins. „Verulegar truflanir á starfsemi flugfélaganna eða brottfall annars, hvað þá beggja flugfélaganna af markaðnum, myndi augljóslega hafa gríðarlegar afleiðingar fyrir ferðaþjónustu á Íslandi. Áhrifin yrðu einnig veruleg fyrir íslenskt efnahagskerfi í heild og almenning. Slíkt áfall hefði keðjuverkandi áhrif, m.a. á gengi krónunnar, eignaverð, vexti og verðbólgu,“ segir jafnframt í greiningunni. Sérfræðingar Landsbankans spyrja svo hvort útbúa þurfi viðbragðsáætlanir sem hægt er að grípa til ef flugfélögin lenda í vanda.

Þess háttar plan er ekki til í dag en samkvæmt svari samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, við fyrirspurn Túrista, þá hefur að undanförnu verið í athugun hvort nauðsynlegt er að áætlun liggi fyrir ef til erfiðleika kemur hjá íslensku millilandaflugfélögunum sem stefna myndi starfsemi þeirra í hættu. Málið er unnið í samráði við fleiri ráðuneyti og kallað hefur verið eftir upplýsingum frá Samgöngustofu. „Þetta verkefni er á byrjunarstigi og því ekki unnt að segja nánar á þessu stigi hvaða tillögur gætu verið settar fram,“ segir svari ráðuneytisins.

Í ár er gert ráð fyrir að erlendir komufarþegar á Keflavíkurflugvelli verði í heildina nærri 2,3 milljónir. Og miðað við þær tölur sem liggja fyrir um farþegafjölda Icelandair og WOW air og hlutfall mismunandi farþegahópa um borð í þotum félaganna þá má gera ráð fyrir að flugfélögin tvö flytji til landsins á bilinu 1,2 til 1,4 milljónir ferðamanna í ár. Eða ríflega helming allra þeirra erlendu ferðalanga sem leggja leið sína til Íslands.