Air Canada snýr aftur á stærri og splunkunýjum þotum

Kanadíska flugfélagið hyggst nota Boeing MAX 8 í Íslandsflug sitt á næsta ári og í þeim verða sæti fyrir fleiri farþega en í Airbus þotunum sem félagið nýtti í flugið hingað í sumar.

aircanada

Íslensku flugfélögin höfðu setið ein að áætlunarflugi milli Íslands og Kanada þar til Air Canada hóf að fljúga til hingað frá bæði Montreal og Toronto síðastliðið vor. Í vetur verða Icelandair og WOW air aftur ein á markaðnum en í maí mun stærsta flugfélag Kanada taka upp þráðinn á ný og bjóða upp á beint flug til Keflavíkurflugvallar fram í október frá þessum tveimur fjölmennustu borgum Kanada. Þetta staðfestir Isebelle Arthur, upplýsingafulltrúi Air Canada, í svari til Túrista.

Þoturnar sem flugfélagið nýtti í Íslandsflug sitt síðastliðið sumar voru af gerðinni Airbus A319 og í þeim eru sæti fyrir 120 farþega. Á næsta ári verða hins vegar MAX8 þotur frá Boeing nýttar í áætlunarflug Air Canada til Íslands en félagið tekur sína fyrstu þotu, af þeirri tegund, í gagnið á allra næstu dögum. Í MAX þotum Air Canada verða verða sæti fyrir 169 farþega og næstu sumarvertíð flugfélagsins hér á landi verða þar af leiðandi sæti fyrir um 6 þúsund fleiri farþega en síðastliðið sumar.

Air Canada verður þó ekki eina flugfélagið sem mun leggja splunkunýjum Boeing MAX þotum upp á Leifsstöð því Icelandair fær þannig þotur afhentar í byrjun næsta árs.