Bangsar á faraldsfæti í jólaauglýsingu Heathrow

Það er hefð fyrir því að spila á tilfinningarnar á þessum árstíma og jólakveðja Heathrow flugvallar er engin undantekning frá þeirri reglu.

Mynd: Heathrow Airport

Það eru ófáar jólamyndir sem innihalda dramatískar senur sem teknar eru á flugvöllum. Sögupersónurnar eru kannski hársbreidd frá því að ná síðasta fluginu heim og svo bíða þeirra innilegar móttökur við lendingu og allir anda léttar. Þemað í jólaauglýsingum flugfélaganna er keimlíkt því sem við þekkjum úr bíómyndunum og það er óhætt að segja að handritshöfundar jólakveðju Heathrow flugvallar hafi ekki brugðið út af vananum og jafnvel farið ennþá lengra upp tilfinningaskalann með því að fela krúttlegum böngsum aðalhlutverkin.