Fjórðungslækkun á ódýrustu bílaleigubílunum við Keflavíkurflugvöll

Þrátt fyrir styrkingu krónunnar þá borga erlendir ferðamenn nokkru minna fyrir bílaleigubíl hér á landi næstu mánuði í samanburði við þarsíðasta vetur.

Það kostar minna að leigja bíl fyrir Íslandsreisu í vetur. Mynd: Gemma Evans/Unsplash

Sá sem leigir sér bíl við Keflavíkurflugvöll í vetur má gera ráð fyrir að borga að lágmarki um 20 þúsund krónur fyrir vikuleigu á bíl af minnstu gerð. Ódýrasti kosturinn var hins vegar 7 þúsund krónum dýrari á sama tíma fyrir 2 árum samkvæmt verðkönnunum Túrista. En í þeim eru borin saman ódýrustu tilboðin í vikuleigu á bílaleigunum við Keflavíkurflugvöll og meðalverðið er reiknað út frá þeim kjörum sem buðust næstu fjóra mánuði.

Þó verðlækkunin á ódýrustu bílunum nemi ríflega fjórðungi í íslenskum krónum talið þá er hún minni í evrum og dollurum eða 15-18%. Fyrir Breta er leigan óbreytt enda hefur breska pundið veikst umtalsvert síðustu misseri. Þrátt fyrir verðlækkunin hér á landi þá er leiguverðið ennþá nokkru hærra en á meginlandi Evrópu en hins vegar lægra en við flugvellina í Ósló og Stokkhólmi eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan.

Styrking krónunnar er á sama hátt helsta ástæða þess að Íslendingar á leið út í heim í vetur borga töluvert minna fyrir bílaleigubíla en áður. Þannig hefur leiguverðið lækkað um þriðjung við flugvöllinn í Munchen en þangað fljúga margir Íslendingar þegar ferðinni er heitið í skíðaferð upp í Alpana. Og það er orðið margfalt ódýrara að borga fyrir bílaleigubíl í Bretlandi í íslenskum krónum.

Í verðkönnun Túrista var notast við leitarvél Rentalcars til að bera saman verð á bílaleigum við hvern flugvöll fyrir sig. Verðkannanir Túrista hafa sýnt að Rentalcars finnur oft lægra verð en er í boði annars staðar. Í öllum tilvikum var ótakmarkaður akstur, fríar afbókanir og kaskótrygging innifalin í verðinu.