Færri bóka far til Barcelona

Ferðaþjónustan í Barcelona finnur fyrir samdrætti enda hefur dregið töluvert úr ferðapöntunum til Katalóníu síðustu vikur. Frá Íslandi má komast fyrir lítið til borgarinnar á næstunni.

barcelonna Camille Minouflet
Barcelona hefur lengi verið ein vinsælasta ferðamannaborg Evrópu en nú horfa margir ferðalangar annað. Mynd: Camille Minouflet/Unsplash

Það hefur verið róstursamt í Barcelona undanfarna mánuði og óvissa ríkir um framtíð Katalóníu innan Spánar. Það hefur auðvitað viðamikil áhrif og ekki síst á ferðaþjónustu landsins enda hefur Katalonía verið sá hluti Spánar sem mestrar hylli hefur notið meðal erlendra ferðamanna. Fjórði hver túristi sem átti leið um Spán í fyrra fór um Katalóníu og til að mynda bókuðu útlendingar um helmingi fleiri gistingar Barcelona á síðasta ári en í höfuðborginni Madríd. Og gestunum hefur farið hratt fjölgandi síðustu ár enda hefur spænsk ferðaþjónusta notið góðs af því að ástandið í löndum eins og Tyrklandi og Egyptalandi, og Grikklandi á tímabili, hefur verið óstöðugt. 

Nú er hins vegar hægt að segja það sama um stöðuna í Katalóníu. Í ágúst var framið mannskætt hryðjuverk á Römblunni og undanfarið hafa birst myndir í heimspressunni af lögreglufólki að berja á mótmælendum. Og nú eru ráðamenn í Katalóníu eftirlýstir af spænskum yfirvöldum og íbúar svæðisins hafa efnt til allsherjarverkfalla. Allt þetta hefur orðið til þess að í október fækkaði bókunum útlendinga á ferðalögum til Katalóníu um 22 prósent samkvæmt úttekt greiningafyrirtækisins ForwardKeys sem Politiken segir frá. Í grein danska blaðsins segir jafnframt hóteleigendur í Barcelona verði varir við samdrátt og afbókanir á ráðstefnum. Eins munu skipafyrirtæki vera farin að íhuga aðra viðkomustaði fyrir skemmtiferðaskipin sín. Danskur heimamaður í höfuðstað Kataloníu, sem Politiken ræddi við, segir hins vegar að borgin sé öruggur staður til að vera á fyrir ferðamenn og þeir séu reyndar fjölmargir í borginni núna sem endranær. Og þó þeim fækki eitthvað þá hefði það ekki mikil áhrif enda hefur borgin verið það vinsæl meðal ferðalanga að heimamönnum hefur þótt nóg um. Sérstaklega hefur mikil útbreiðsla Airbnb í borginni valdið óánægju og til að mynda var það eitt helsta kosningaloforð núverandi borgarstjóri Barcelona að hefta útbreiðslu heimagistingar fyrir ferðamenn.

Og af fargjöldunum frá Íslandi til Barcelona í vetur að dæma þá hefur eitthvað dregið úr áhuga Íslendinga á ferðum til borgarinnar. Þannig er hægt að fljúga beint til Barcelona næstu daga fyrir lítið með bæði WOW air og Norwegian. Hjá WOW air kosta ódýrustu farmiðarnir til borgarinnar á bilinu 6 til 11 þúsund krónur en farið er vanalega á 7.400 krónur hjá Norwegian. Heimferðin er stundum dýrari og eins ber að hafa í huga að innritaður farangur fylgir ekki þessum lægstu fargjöldum. Hér er hægt að bera saman fargjöld félaganna.

Samkvæmt hótelleit HotelsCombined er um 60% af gistirými bókað í Barcelona næstu helgar en til samanburðar er hlutfallið 70% í París.