Farið með Flugrútunni hækkar

Sætið út á Keflavíkurflugvöll hækkar um 200 krónur og þar með breikkar verðbilið á milli Airport Express og Flugrútunnar.

Nú kostar farið frá BSÍ að Leifsstöð 2.700 kr. Mynd: Kynnisferðir

„Verðið hefur ekki hækkað í rúmt ár þrátt fyrir aukin kostnað, til dæmis vegna launahækkana,“ segir Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, aðspurður um ástæður þess að fargjöld Flugrútunnar hækkuðu um síðustu mánaðarmót. Þá fór stakt fargjald úr 2.500 kr. í 2.700 kr. og farmiði, báðar leiðir, er nú á 4.900 kr. Hækkunin nemur um 9 prósentum.

Auk Flugrútunnar býður Gray Line upp á sætaferðir til og frá Keflavíkurflugvelli í tengslum við allt millilandaflug og kostar stakt far með fyrirtækinu 2.400 krónur. Sá sem kaupir farmiða báðar leiðir greiðir hins vegar 3.900 kr. hjá Gray Line eða um fimmtungi minna en hjá Flugrútunni. Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line, segir að farmiðaverðið með Airport Express verði óbreytt eins og staðan er í dag. „Markaðshlutdeild okkar er að aukast og við erum þakklát fyrir það.“

Fyrr á þessu ári hélt Isavia útboð á aðstöðu fyrir rútuferðir til og frá Leifsstöð og buðu Kynnisferðir og Hópbílar hæst. Fyrrnefnda fyrirtækið mun þá greiða Isavia 41,2% af veltu Flugrútunnar fyrir áframhaldandi veru í og við flugstöðina. Það jafngildir 1.112 krónum af hverjum seldum miða sé miðað við hið nýja 2.700 kr. fargjald. En líkt og kom fram í umfjöllun Túrista í sumar þá er nemur farþegagjald Isavia í dag 173 kr. af hverjum seldum miða. Tekjur Isavia af rútustæðunum við Keflavíkurflugvöll gætu hátt í sjöfaldast þegar hið nýja greiðslufyrirkomulag tekur gildi eftir fjóra mánuði.

Þess má geta að forsvarsmenn Gray Line hafa boðað áframhald á áætlunarferðum sínum milli Holtagarða og Keflavíkurflugvallar þrátt fyrir að fyrirtækið fái ekki aðstöðu beint við útgang flugstöðvarinnar. Félagið áformar að nota sömu stoppustöð og Strætó nýtir fyrir sínar ferðir til og frá Keflavíkurflugvelli.