Flugáætlun Keflavíkurflugvallar nú aðgengileg lengra aftur og fram í tímann

Á heimasíðu Keflavíkurflugvallar má nú finna upplýsingar um alla komu- og brottfarartíma síðustu 90 daga og næstu 5 daga. Þjónustan gæti komið þeim vel sem ætla að sækja bætur vegna óhóflegra tafa á flugi.

Mynd: Isavia

Það eru vafalítið ófáir sem skoða flugáætlun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar áður en lagt er í hann út á völl. Bæði þeir sem eru á leið til útlanda en líka hinir sem ætla að taka á móti vinum og vandamönnum við komuna til landsins. Hingað til hafa verið aðgengilegar á heimasíðu Keflavíkurflugvallar upplýsingar um flugtíma dagsins auk morgunsdagsins og gærdagsins en nú hefur verið bætt um betur. Á heimasíðunni eru núna upplýsingar um brottfarir og komur síðustu 90 daga og næstu 5 daga.

Þessi bætta upplýsingagjöf kemur ekki bara þeim til góða sem eiga erindi út á Keflavíkurflugvöll heldur líka þeim sem þurfa að sýna fram á mikla seinkun ef ætlunin er að sækja bætur til flugfélagsins. En upplýsingar um réttindi flugfarþega vegna seinkunar eða aflýsingar má finn á heimasíðu Samgöngustofu.