Fyrrum yfirmaður Stjórnstöðvar metur verðandi ferðamálastjóra

Hörður Þórhallsson sem gegndi stöðu framkvæmdastjóra Stjórnstöðvar ferðamála situr í hæfnisnefnd ráðherra sem fara á yfir umsóknir þeirra sem sóttu um embætti ferðamálastjóra. Meðal umsækjenda er Halldór Halldórsson sem kom að stofnun Stjórnstöðvarinnar.

Þann 6. október 2015 var samkomulag ríkisins, sveitarfélaga og Samtaka ferðaþjónustunnar um Stjórnstöð ferðamála undirritað. Mynd: Stjórnstöð ferðamála

Nýr ferðamálastjóri tekur við í ársbyrjun og sóttu tuttugu og þrír um stöðuna áður en umsóknarfrestur rann út um síðustu mánaðarmót. Það bíður nú hæfnisnefndar að vega og meta umsækjendur en í henni sitja þær Guðný Elísabet Ingadóttir frá dómsmálaráðuneytinu og Guðrún Gísladóttir frá atvinnuvegaráðuneytinu ásamt Herði Þórhallssyni framkvæmdastjóra hjá Icepharma.

Hörður var áður í forsvari fyrir Stjórnstöð ferðamála og hafa viðmælendur Túrista innan ferðaþjónustunnar undrast setu hans í nefndinni. Meðal vegna þess að í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er því haldið fram að stofnun Stjórnstöðvar ferðamála hafi ekki orðið til þess að einfalda skipulag greinarinnar. Ríkisendurskoðun leggur því til að hlutverk og ábyrgð Stjórnstöðvarinnar gagnvart stjórnsýslustofnunum verði gert skýrari til að koma í veg fyrir tvíverknað því eins og bent er á í skýrslunni er það Stjórnstöðvar að fylgja eftir verkefnum sem samkvæmt lögum eru á ábyrgð Ferðmálastofu. Gera má ráð fyrir að þetta álit Ríkisendurskoðunar og samspil Stjórnstöðvar og Ferðamálastofu muni koma upp í ráðningaviðtölum hæfnisnefndarinnar við umsækjendur um stöðu ferðamálastjóra. Þar situr þá öðrum megin við boðið fyrsti yfirmaður Stjórnstöðvarinnar.

Það var Ragnheiður Elín Árnadóttir, þáverandi ráðherra ferðamála, sem skipaði Hörð sem framkvæmdastjóra Stjórnstöðvarinnar  fyrir tveimur árum síðan og skapaði sú ráðning töluverða umræðu á sínum tíma. Meðal annars vegna þess staðan var ekki auglýst og einnig vegna þess að Hörður hafði ekki reynslu af störfum innan ferðaþjónustu. Tengsl Harðar við Sjálfstæðiflokkinn voru einnig til umræðu en Ragnheiður Elín var þá ráðherra flokksins og oddviti Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi.    

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, núverandi ráðherra ferðamála og flokkssystir Ragnheiðar Elínar, skipaði hæfnisnefndina og það gæti orðið eitt síðasta verk Þórdísar að ráða nýjan ferðamálastjóra. En meðal þeirra 23 sem sóttu um stöðuna er Halldór Halldórsson en hann kom að stofnun Stjórnstöðvar ferðamála haustið 2015 sem formaður Sambands íslenskra sveitafélaga. Halldór er jafnframt núverandi oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Eva Magnúsdóttir fyrrum aðstoðarkona Ragnheiðar Elínar, þáverandi ráðherra ferðamála, er einnig meðal umsækjenda.