Gripu tækifærið á Íslandi

Stærsta flugfélag heims hefur Íslandsflug frá Dallas í vor og mun því veita íslensku flugfélögunum samkeppni á þeirri flugleið.

Mynd: American Airlines

Í september tilkynntu bæði forsvarsmenn WOW air og Icelandair að frá og með maí næstkomandi yrði bandaríska borgin Dallas í Texas hluti af leiðakerfi félaganna. Boeing þotur Icelandair munu fljúga til Fort-Worth flugvallarins fjórum sinnum í viku og Airbus þotur WOW air fara þangað þrisvar í viku. En nú ætla að stjórnendur American Airlines að bæta um bætur og bjóða upp á daglegar ferðir til Íslands frá Fort-Worth flughöfninni en þar er þetta stærsta flugfélag heims með höfuðstöðvar sínar.

Ross Feinstein, talsmaður American Airlines, vill ekkert segja hvort þetta fyrsta Íslandsflug félagsins hafi eitthvað með komu íslensku flugfélaganna til Dallas að gera. Í svari hans til Túrista segir aðeins að Reykjavík sé orðin mjög vinsæll ferðamannastaður, sérstaklega á sumrin, og frá Dallas flugvelli geti American Airlines boðið upp á framúrskarandi möguleika á tengiflugi. „Við erum alltaf að leita leiða til að geta flogið með viðskiptavini okkar þangað sem þeir vilja fara og þegar það gefst tækifæri á að bæta nýjum áfangastaða við stærsta leiðakerfi heims þá grípum við það.“

Jómfrúarferð American Airlines til Keflavíkurflugvallar á dagskrá 8. júní og sú síðasta verður farin í lok október.