Helmingi dýrara upp í Eiffelturninn

Nú kostar rétt rúmar þrjú þúsund krónur að gera sér ferð upp í þekktasta kennileiti Parísar.

Mynd:Chris Coudron / Unsplash

Um mánaðarmótin hækkaði aðgöngumiðinn að toppi Eiffelturnsins í París úr 2000 krónum (17 evrur) í rétt rúmar 3000 krónur (25 evrur). Hækkuninni er ætlað að standa undir þeim miklu framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru í kringum turninn næstu 15 árin en meðal annars er ætlunin að reisa girðingu úr skotheldu gleri í við þetta fræga mannvirki. Glergirðingin verður tveggja og hálfs metra há og mun ná meðfram norður- og suðurhluta turnsins. Hryðjuverkin í París í hittifyrra eru sögð kveikjan að því að ráðist verður í þessar öryggisráðstafanir samkvæmt frétt Conde Nast Traveller.

Þeir sem ætla að láta sér nægja að fara aðeins upp á aðra hæð Eiffeltursnins greiða líka hærra gjald en áður en miðinn hækkaði úr 11 í 16 evrur ef farið er með lyftu en 10 evrur ef maður vill vinna sér inn fyrir góðum mat með því að fara upp tröppurnar.

Þrátt fyrir þessa hækkun í París þá er ennþá helmingi ódýrara að virða París fyrir sér frá toppi Eiffel en að horfa niður á Manhattan af útsýnispallinum í Empire State byggingunni. Miðinn þangað upp kostar nefnilega rétt tæpar 6 þúsund krónur en til samanburðar kostar 900 krónur upp í turn Hallgrímskirkju.