Hlutdeild flugfélaganna breytist í stórum stökkum

Farþegum WOW air fjölgaði um nærri helming í október en hjá Icelandair stóð fjöldinn í stað. Í flugferðum talið hafa einnig orðið miklar breytingar á vægi félaganna milli ára.

icelandair wow
Myndir: Icelandair og WOW air

Í október 2013 stóð Icelandair undir þremur af hverjum fjórum brottförum frá Keflavíkurflugvelli en fjórum árum síðar er hlutfallið komið niður í 46,4 prósent. Á sama tíma hefur vægi WOW air tvöfaldast samkvæmt talningum Túrista á flugumferð og eins eru erlend flugfélög nú með hátt í eina af hverjum fjórum brottförum en ekki tíundu hverja líkt og í október fyrir fjórum árum síðan.

Mánaðarlega gefa stjórnendur Icelandair og WOW air upp tölur yfir fjölda farþega og samkvæmt þeim þá flugu nærri 321 þúsund farþegar með Icelandair í október en 258 þúsund með WOW air. Hjá því fyrrnefnda jókst fjöldinn um 0,3% frá sama tíma í fyrra en aukningin nam 46% hjá því síðarnefnda. Vöxtur WOW heldur því áfram að vera mjög hraður og til samanburðar má þess geta að í mars síðastliðnum þá flutti Icelandair 252 þúsund farþega eða aðeins færri en WOW gerði í nýliðnum október.