Icelandair komið til Tegel á ný

Berlínarflug Icelandair er hafið og þar með harðnar samkeppni íslensku flugfélaganna á meginlandi Evrópu.

Tekið var á móti Icelandair á Tegel með viðhöfn. Mynd: Icelandair

Áfanga­staðir Icelandair í Þýskalandi eru nú orðnir fjórir talsins því í gær hófst áætl­un­ar­flug félagsins til Berlínar en borgin var síðast hluti af leiða­kerfi félagsins fyrir um áratug síðan. „Berlín er stærsta borg Þýska­lands og býr yfir merki­legri sögu, fjöl­breyttu menn­ing­ar­lífi og líflegu nætur­lífi. Borgin hefur lengi verið vinsæl meðal Íslend­inga, bæði til búsetu og heim­sóknar, enda finna allir eitt­hvað sitt við hæfi þar. Það er því ánægju­legt að geta á ný þjón­u­stað þá landa okkar sem þangað sækja og við erum stolt af því að geta nú boðið bestu upplif­unina í flugi milli Berlínar og Íslands,“ segir Birkir Hólm Guðnason, fram­kvæmda­stjóri Icelandair, í tilkynn­ingu.

Berlín­ar­flug Icelandair hefst nokkrum dögum eftir að Airberlin lagið niður starf­semi en það félag hafði boðið upp á beint flug milli Íslands og Tegelflug­vallar í Berlín um langt árabil. Og það er ekki tilviljun að Icelandair komi til Berlínar strax í kjölfar enda­loka Airberlin því aðeins þremur dögum eftir að þýska flug­fé­lagið fór í greiðslu­stöðvun í ágúst þá kynntu forsvars­menn Icelandair til sögunnar heils­árs­flug til Berlínar. En þaðan bauð Airberlin til að mynda upp á flug til 5 borga í Banda­ríkj­unum og stærsti mark­að­urinn sem þýska flug­fé­lagið skilur eftir sig eru allir þeir sem vilja fljúga milli Berlínar og N‑Ameríku. Þar mun Icelandair til að mynda etja kappi við WOW air sem hefur flogið til Schö­ne­feld flug­vallar í Berlín allt frá stofnun flug­fé­lagsins og nýverið bætti WOW við ferðum til Berlínar.

Yfir sumar­mán­uðina býður Eurow­ings einnig upp á flug milli Íslands og Berlínar og farþegar á leið héðan til þýsku höfuð­borg­ar­innar hafa því úr miklu að moða.