Icelandair komið til Tegel á ný

Berlínarflug Icelandair er hafið og þar með harðnar samkeppni íslensku flugfélaganna á meginlandi Evrópu.

Tekið var á móti Icelandair á Tegel með viðhöfn. Mynd: Icelandair

Áfangastaðir Icelandair í Þýskalandi eru nú orðnir fjórir talsins því í gær hófst áætlunarflug félagsins til Berlínar en borgin var síðast hluti af leiðakerfi félagsins fyrir um áratug síðan. „Berlín er stærsta borg Þýskalands og býr yfir merkilegri sögu, fjölbreyttu menningarlífi og líflegu næturlífi. Borgin hefur lengi verið vinsæl meðal Íslendinga, bæði til búsetu og heimsóknar, enda finna allir eitthvað sitt við hæfi þar. Það er því ánægjulegt að geta á ný þjónustað þá landa okkar sem þangað sækja og við erum stolt af því að geta nú boðið bestu upplifunina í flugi milli Berlínar og Íslands,“ segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, í tilkynningu.

Berlínarflug Icelandair hefst nokkrum dögum eftir að Airberlin lagið niður starfsemi en það félag hafði boðið upp á beint flug milli Íslands og Tegelflugvallar í Berlín um langt árabil. Og það er ekki tilviljun að Icelandair komi til Berlínar strax í kjölfar endaloka Airberlin því aðeins þremur dögum eftir að þýska flugfélagið fór í greiðslustöðvun í ágúst þá kynntu forsvarsmenn Icelandair til sögunnar heilsársflug til Berlínar. En þaðan bauð Airberlin til að mynda upp á flug til 5 borga í Bandaríkjunum og stærsti markaðurinn sem þýska flugfélagið skilur eftir sig eru allir þeir sem vilja fljúga milli Berlínar og N-Ameríku. Þar mun Icelandair til að mynda etja kappi við WOW air sem hefur flogið til Schönefeld flugvallar í Berlín allt frá stofnun flugfélagsins og nýverið bætti WOW við ferðum til Berlínar.

Yfir sumarmánuðina býður Eurowings einnig upp á flug milli Íslands og Berlínar og farþegar á leið héðan til þýsku höfuðborgarinnar hafa því úr miklu að moða.