Farmiðinn kostar mun meira ef ferðalagið hefst á Íslandi

Talskona American Airlines segir ólíka verðlagningu á mismunandi svæðum vera ástæðu þess að fargjöld félagsins eru miklu hærri en það sem Icelandair og WOW air bjóða.

Það munu sennilega fáir íslenskir farþegar fljúga með American Airlines til Bandaríkjanna í sumar nema verðstefna flugfélagsins breytist. Mynd: American Airlines

Í sumarbyrjun hefja bæði íslensku flugfélögin og American Airlines áætlunarflug milli Íslands og Fort-Worth flugvallar í Dallas. Munurinn á fargjöldum félaganna þriggja er hins vegar verulegur og getur verið allt af þrefaldur líkt og Túristi greindi frá. Aðspurð um skýringu á þessu mikla mun þá bendir Martha Thomas, talskona American Airlines, á að félagið bjóði samkeppnishæf fargjöld fyrir þá farþega sem byrja ferðalagið í Dallas. „Við erum bandarískt flugfélag og Bandaríkin eru okkar stærsti markaður,“ bætir Thomas við en segir jafnframt að verðlagning flugfélagsins sé sífellt til endurskoðunar. „Það þýðir að fargjöld breytast reglulega og á hverjum markaði fyrir sig, hvort sem er í Bandaríkjunum eða á Íslandi, getur verðstefnan verið ólík.“

Í því ljósi má nefna að í dag kostar um 135 þúsund krónur að fljúga með American Airlines frá Keflavíkurflugvelli til Dallas dagana 8. til 14. júní. Farið er hins vegar á aðeins 81 þúsund krónur ef flogið er frá Dallas til Íslands. Munurinn er 54 þúsund krónur en til samanburðar kosta ódýrustu farmiðar Icelandair og WOW air rúmlega 60 þúsund á þessum sömu dagsetningum.

Að verðleggja flugmiða með ólíkum hætti eftir mörkuðum er ekki óþekkt í fluggeiranum en var algengara hér á árum áður. En það er ljóst að forsvarsmenn American Airlines, stærsta flugfélags í heimi, eru ekki að horfa til þess að Íslendingar nýti sér áætlunarflug félagsins í sumar. Með verðlagningunni fókus þeir á aðeins á bandaríska ferðamenn á leið til Íslands og svo þá sem gætu haldið áfram frá Keflavíkurflugvelli til Evrópu með samstarfsfélögum American Airlines, þ.e. Finnair, British Airways og Iberia.