Miklu dýrara til Dallas með American Airlines en íslensku flugfélögunum

Forsvarsmenn stærsta flugfélags heims telja sig geta selt farmiða milli Íslands á Dallas á allt að þrefalt hærra verði en stjórnendur Icelandair og WOW air gera.

Mynd: Icelandair
Það verður flogið 14 sinnum í viku til Dallas næsta sumar frá Keflavíkurflugvelli. Mynd: Icelandair

Þann 8.júní næstkomandi tekur Boeing þota American Airlines á loft frá Keflavíkurflugvelli og heldur áleiðis til Fort-Worth flugvallar í Dallas. Þetta verður fyrsta áætlunarferð félagsins héðan en bæði Icelandair og WOW air fara sínar jómfrúarferðir til Dallas í lok maí. Þar með munu þrjú flugfélög keppa um farþegana á þessari leið og í danska flugritinu Check-in.dk er þessari miklu samkeppni líkt við loftstríð sem geti endað með blóðbaði eins og það er orðið í grein vefsíðunnar.

Þó ber að hafa í huga að líklegt er að stór hluti þeirra farþega sem munu nýta sér áætlunarferðir Icelandair og WOW til og frá Dallas verði farþegar á leið yfir hafið sem munu aðeins millilenda á Íslandi. Bróðurpartur farþega American Airlines verða hins vegar líklega bandarískir ferðamenn á leið til Íslands. Samsetning farþeganna verður því að einhverju leyti ólík.

En hvað sem því líður þá er ljóst að forsvarsmenn bandaríska flugfélagsins verðleggja Íslandsflugið töluvert hærra en íslensku samkeppnisaðilarnir. Þannig kostar rétt um 134 þúsund krónur að fljúga með félaginu í fyrstu ferðinni héðan til Dallas og heim aftur viku síðar. Farmiði fyrir sömu daga kostar tæpar 62 þúsund hjá Icelandair og um 65 þúsund hjá WOW air en farið hækkar hjá íslensku félögunum ef innrita á farangur. Þeir sem ætla að vera á ferðinni í júlí eða ágúst geta fundið ennþá ódýrari farmiða hjá WOW en aftur móti er fargjaldið aðeins hjá Icelandair og áfram sker American Airlines sig úr með nærri þrefalt hærra far en WOW air samkvæmt athugun Túrista.

Í könnuninni voru valdar af handahófi mismunandi samsetningar á ferðum með félögunum þremur um miðjan júní, júlí og ágúst. Hafa ber í huga að allur farangur, sætisval og veitingar eru innifaldar í lægstu fargjöldum American Airlines en ekki hjá WOW air nema minnsti handfarangur. Hjá Icelandair fylgir allt nema innritaður farangur með ódýrustu farmiðunum. Innan sviga eru þau fargjöld íslensku félaganna sem eru með allri þjónustu líkt og hjá American Airlines en þó ekki veitingar hjá WOW air.