Næstu brottfarir til Barcelona á 6 þúsund krónur

Það hefur sennilega aldrei áður verið jafn ódýrt að bóka flugmiða til Barcelona með stuttum fyrirvara. Og þar í borg fæst líka gistingin á tilboði.

barcelona jol
Jólaljósin í Barcelona. Mynd: Ferðamálaráð Barcelona

Það hefur verið róstursamt í höfuðborg Katalóníu síðustu mánuði og túristum í þessari vinsælu ferðamannaborg hefur farið fækkandi. Og af fargjöldum Norwegian og WOW air að dæma þá er eftirspurn eftir flugi milli Keflavíkurflugvallar og El Prat í Barcelona ekki mikil. Þannig kostar aðeins 5.999 krónur að bóka í dag far með WOW air til Katalóníu á morgun og brottfarir næstu viku eru á sama verði. Með Norwegian kostar beina flugið héðan til Barcelona rétt tæpar 10 þúsund krónur næstu daga en bæði flugfélög rukka oftar meira fyrir heimferðina. Það er engu að síður hægt að fljúga báðar leiðir fyrir óvenju lítið næstu daga en þó ber að hafa í huga að borga þarf aukalega fyrir farangur hjá WOW og Norwegian.

Það er þó ekki nóg að fá ódýra flugmiða út í heim því gistingin kostar sitt. En vegna þess hve ferðaþjónustan í Barcelona er í mikilli vörn þá má finna töluvert af hóteltilboðum þar í borg akkúrat núna. Á vef Tablet Hotels, þar sem aðeins eru sérvalin hótel, má t.d finna sjö tilboð í Barcelona og úrvalið er ennþá meira á tilboðssíðu Booking.com.