Örfá hótelherbergi laus á nýársnótt

Það stefnir í mikinn fjölda ferðamanna hér á landi um áramót og vonandi hafa þeir flestir tryggt sér gistingu.

Canopy Reykjavík er eitt þeirra hótela sem er uppbókað á nýársnótt. Mynd: Icelandair Hotels

Stemningin á gamlárskvöld í Reykjavík er reglulega lofuð í heimspressunni og höfuðborgin ratar ósjaldan á lista yfir þá ferðamannastaði sem áhugaverðastir eru þetta síðasta kvöld ársins. Ásóknin í Íslandsferðir yfir áramót hefur því aukist ár frá ári og ekki er útlit fyrir breytingu þar á því samkvæmt hótelsíðunni Booking.com er nú þegar 97% af öllu gistirými í Reykjavík uppbókað á nýársnótt. Það er miklu hærra hlutfall en í höfuðborgum hinna Norðurlandanna en svipað og þekkist í öðrum borgum sem laða að sér fjölda ferðamanna í árslok, t.d. í Sydney, Ríó og Edinborg. Þeir sem ætla í áramótafagnað í New York, London eða París hafa úr meiru að moða.

Þó Booking.com sé eitt umsvifamesta hótelbókunarfyrirtæki í heimi þá gefur staðan á vef þess ekki fullkomna mynd af gistimarkaðnum í hverri borg fyrir sig. Hildur Ómarsdóttir, forstöðumaður markaðssviðs Icelandair hótelanna, staðfestir hins vegar að hótel innan keðjunnar séu sem fyrr mjög vel bókuð yfir áramótin. En innan keðjunnar eru Icelandair hótel í höfuðborginni og út á landsbyggðinni auk þess sem fyrirtækið á og rekur Canopy við Hverfisgötu og Nordica Hilton.

Þeir útlendingar sem kjósa heldur heimagistingu hafa heldur ekki mikið val því samkvæmt vef bandarísku gistimiðlunarinnar Airbnb er aðeins 2% af gistirýmum fyrirtækisins í Reykjavík á lausu yfir áramótin. Þar á meðal nokkrir bílar og tjaldvagnar en eins og komið hefur fram í fréttum hefur kuldakastið undanfarna daga komið illa við þá sem búa við þess háttar aðstæður.