Rússar ætla að fljúga með Íslendinga á HM

Í sumar mun rússneska flugfélagið S7 bjóða upp beint flug héðan til Moskvu. Það gæti komið að góðum notum fyrir þá sem ætla á heimsmeistaramótið í knattspyrnu.

Á laugardögum í sumar munu þotur S7 leggja upp að Leifsstöð. Mynd: S7

Hátt í 6 þúsund Rússar lögðu leið sína til Íslands í sumar sem er nærri 80 prósent aukning frá því í fyrrasumar. Og yfir háannatímann á næsta ári gæti rússneskum ferðalöngum fjölgað töluvert því þá mun í fyrsta skipti rússneskt flugfélag bjóða upp á áætlunarferðir til Íslands. Það er flugfélagið S7 sem er eitt af þeim stærstu í Rússlandi.

Aldrei fyrr hafa verið í boði áætlunarferðir milli Íslands og Moskvu og Nadja Goreva, talskona S7, dregur ekki dul á að þátttaka íslenska karlalandsliðsins á heimsmeistaramótinu í Rússlandi, hafi ýtt undir ákvörðunina um að hefja Íslandsflug. „S7 stækkar leiðakerfi sitt reglulega með því að bæta við nýjum evrópskum áfangastöðum. En við gerum ráð fyrir að því þeir Íslendingar sem ætla að ferðast til Rússlands næsta sumar, á meðan á heimsmeistaramótinu stendur, nýti sér ferðirnar.”

Fyrsta flug S7 til Íslands er á dagskrá þann 9. júní en heimsmeistaramótið hefst fimm dögum síðar. Ef Ísland spilar í Moskvu þá verður það annað hvort miðvikudaginn 20. júní eða laugardaginn 23. júni. Þotur S7 taka hins vegar ekki á loft frá Keflavíkurflugvelli fyrr en rétt fyrir miðnætti á laugardagskvöldum og lenda svo í Moskvu klukkan 7 að morgni sunnudags. Flugáætlunin hentar því ekki fyrir þá sem ætla að fljúga út til að horfa á einn leik í Moskvu en þar sem S7 er mjög umsvifamikið í innanlandsflugi þá býður félagið upp á tengiflug til fjölda margra borga í Rússlandi frá Domodedovo flugvelli. Ódýrasta farið með S7 frá Íslandi til Moskvu kostar í dag rúmlega 17 þúsund krónur.

Sem fyrr segir verður þetta í fyrsta skipti sem boðið er upp á áætlunarflug milli Íslands og Moskvu en ætli íslensku flugfélögin að hefja flug til Asíu þurfa þau að semja við Rússa um leyfi til að fljúga yfir landið þeirra. Hluti af þess háttar samkomulagi er oft að viðkomandi flugfélag hefji einnig áætlunarflug til rússnesks áfangastaðar. Það yrði þó ekki í fyrsta skipti sem íslenskt flugfélag flygi reglulega til Rússlands því Sankti Pétursborg var hluti af leiðakerfi Icelandair sumrin 2013 og 2014.