Spá því að ferðamet Íslendinga falli í júní

Ferðagleði landans hefur verið mjög mikil í ár og forsvarsmenn Keflavíkurflugvallar sjá fram á ennþá fleiri utanlandsferðir á því næsta.

Mynd: Isavia

Í júní í fyrra flugu 67 þúsund Íslendingar til útlanda frá Keflavíkurflugvelli og þar með féll ferðametið sem sett var í júní 2007 þegar íslensku farþegarnir voru nærri 55 þúsund. Þessi mikla bæting á gamla metinu skrifaðist að miklu leyti á þátttöku íslenska karlalandsliðsins á Evrópumótinu í knattspyrnu enda stóðu þúsundir Íslendinga á pöllunum í leikjum liðsins í Frakklandi. Í júní á næsta ári tekur liðið svo þátt í heimsmeistaramótinu í Rússlandi og þó samgöngurnar þaðan frá Íslandi séu af skornum skammti þá gera forsvarsmenn Isavia engu að síður ráð fyrir því tæplega 72 þúsund Íslendingar haldi út í heim í þeim mánuði. Þar með fellur ferðametið sem þá verður orðið tveggja ára.

Hversu stór hluti af þessum fjölda fer til Rússlands í júní ræðst af framboð á flugi en eina flugfélagið sem hefur boðið áætlunarflug milli Íslands og Rússlands næsta sumar er flugfélagið S7 sem mun fljúga hingað frá Moskvu á laugardögum. Í gær gaf Icelandair það svo út að félagið myndi fljúga að minnsta kosti eitt flug til þeirra þriggja borga í Rússlandi þar sem leikir Íslands í riðlakeppninni fara fram.

Í farþegaspá Isavia , sem kynnt var í gær, er gert ráð fyrir að rúmlega 666 þúsund Íslendingar flugi út í heim frá Keflavíkurflugvelli á næsta ári og yrði það aukning um rúm 8 prósent frá árinu í ár. Það er helmingi minni viðbót en verið hefur fyrstu 10 mánuði þessa árs en ferðagleði Íslendinga hefur verið mjög mikil í ár og um páskana fylltust til að mynda bílastæðin við Flugstöð Leifs Eiríkssonar í fyrsta skipti.