Uppáhalds bístró borgarstjórans í Philadelphia

Finna má frönsku útgáfuna af hinum óformlega veitingastað víða um veröld. Líka í Philadelphia og þangað fer borgarstjórinn með gesti sína.

Myndir: Parc Restaurant

Þekktasta framlag Philadelphiu til matarmenningar heimsins er vafalítið Philly samlokan en í henni koma saman þunnt skorin nautasteik, bræddur ostur og mjúkt langlokubrauð. Þessum ágæta skyndibita er auðvitað mikilvægt að gera skil eigi maður leið um Philadelphia. Til að mynda á hinum 125 ára gamla Reading Terminal matarmarkaði.

Samlokan fræga kemst hins vegar ekki á matseðilinn á veitingastaðnum Parc við Rittenhouse torgið í hjarta borgarinnar. Þar er nefnilega eldað eftir frönskum uppskriftum og vilji maður samloku þar þá stendur valið á milli Croque Madame eða Baguette Provençale. Á matseðli Parc er líka að finna gott samansafn af þeim réttum sem finna má á frönskum bistróum út um allan heim en líka nokkra klassíska úr ítalska eldhúsinu. Þessi góða blanda og hin fallegu húsakynni Parc veitingastaðarins gera það svo að verkum að þangað kemur ekki bara borgarstjórinn með gesti sína heldur líka Hollywood fólkið þegar það á leið um „fæðingarborg” Bandaríkjanna. Skoski leikarinn James McAvoy mælti t.d. með Parc í nýjasta tölublaði Conde Nast Traveller.

Útsendari Túrista hefur einnig sest að veisluborðunum á Parc og mælir hiklaust með krækling og frönskum sem í boði eru í hádeginu. Þess háttar kostar tæpar 2 þúsund krónur en aðalréttirnir á kvöldin eru á um 3 þúsund kr. 

Icelandair býður upp á flug til Philadelphia yfir sumarmánuðina.