Verðið á bílaleigubílum í Flórída hækkar ekki

Sömu kjör á bílaleigunum í Orlandó, Miami og Tampa fyrir þá sem bóka með löngum og stuttum fyrirvara.

florida lance asper
Mynd: Lance Asper/Unsplash

Það er löng hefð fyrir vetrarferðum Íslendinga til Flórída og næstu mánuði verður framboð á flugi þangað mun meira en áður. Og nú takmarkast flugið milli Íslands og Flórída ekki lengur við áætlunarferðir Icelandair til Orlando því flugfélagið býður nú líka upp á flug til Tampa. Auk þess fara þotur WOW air fjórum sinnum í viku til Miami.

Þeir sem vilja fljúga beint til sólskinsfylkisins hafa þú úr miklu að moða en þegar á staðinn er komið vilja sennilega ferðalangar flestir hafa bíl til umráða enda Flórída ekki þekkt fyrir góðar almennings samgöngur. Og miðað við endurteknar verðkannanir Túrista þá hafa verðskrár bílaleiganna á flugvöllunum í Orlando, Miami og Tampa staðið í stað í ár. Alla vega þegar kemur að vikulangri leigu í janúar næstkomandi og reyndar er leiguverðið lægra í dag en það var í maí  sl. eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.

Í könnun Túrista var leitarvel Rentalcars notuð en með henni er hægt að bera saman kjör á þekktustu bílaleigunum á hverjum stað fyrir sig.