Sala á léttvíni jókst á kostnað bjórsins í Fríhöfninni eftir að reglum um tollfrjálsan innflutning flugfarþega var breytt í júní í fyrra. Það eru því líklega fleiri nú en áður sem nýta tollinn í að kaupa sér léttvín og þar gæti verðmunurinn á vínflöskunum Vínbúðunum og Fríhöfninni vegið þungt. Hann getur nefnilega verið allt að 40 prósent og í krónum talið munar mest 1.700 krónum á sömu vínflöskunni í Fríhöfninni og í Vínbúðunum samkvæmt könnun Túrista og Vínklúbbsins Vín&vín. Verðbilið er þó að jafnaði minna eða um 28 prósent, það á t.d. við um mest seldu léttvínsflöskuna í Vínbúðunum í fyrra, Tommasi Graticcio Apassimento. Þar á bæ kostar hún 2.199 kr. en 1.539 kr. í Fríhöfninni.
Allt að 40 prósent ódýrara að kaupa vínið í Fríhöfninni
Opinberar álögur eru mun hærri á léttvín sem selt er í Vínbúðunum en í Fríhöfninni og það getur því munað töluverðu að verði sömu flöskunnar í verslununum tveimur.
