Samfélagsmiðlar

9 góðar freyðivínsflöskur fyrir flugfarþega

Vafalítið munu fleiri flugfarþegar taka með sér kampavín, cava eða prosecco úr Fríhöfninni næstu vikur en gerist og gengur. Hér er listi sem gæti einfaldað valið á veisluvíninu.

Freyðivínin 9; fyrst kampavínið, svo cava og loks prosecco.

Að skála í freyðivíni á tímamótum er siður sem hefur djúpar rætur í vestrænni menningu og færist í aukanna í öðrum menningarheimum. Hinar dásamlegu „bubblur“ í kampavíni sem myndast í annarri gerjun eftir átöppun, voru upprunalega flokkaðar sem framleiðslugalli á hvítvíni sem gerði víngerðarmönnum í Kampavínshéraði lífið leitt en kampavínið hefur með tímanum og bættri átöppunartækni breyst í einn af eftirstóttustu drykkjum veraldar.

Lög og reglur um upprunavottorð banna vínframleiðendum utan Kampavínshéraðs í Frakklandi að kalla framleiðslu sína kampavín en það bannar þeim ekki að nota sömu aðferð og notuð er við framleiðslu kampavíns og hafa til að mynda spænskir vínframleiðendur nýtt sér þetta til fulls við framleiðslu á cava víninu.  Það má því segja að cava sé kampavín Spánar unnið úr spænskum þrúgum með kampavínsaðferðinni.

Hið ítalska prosecco vín er svo ásamt hinu spænska cava það freyðivín sem stendur kampavíninu næst í vinsældum.  Prosecco er framleitt með ódýrari aðferð þar sem önnur gerjun og bubblurnar myndast í stáltönkum áður en vínið er tappað á flöskur en vinsældir þess um allan heim eru ósviknar, hugsanlega vegna þess að verðinu er stillt í hóf sem hentar vel þegar er verið að kaupa inn fyrir stór mannamót.

Til að auðvelda lesendum valið bað Túristi vínklúbbinn Vín&vín um að mæla með þremur flöskum úr ofangreindum freyðivínstegundum sem allar fást í komuversluninni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Til hliðsjónar er líka einkunnagjöf notenda vínvefsíðunnar Vivino fyrir hverja tegund. Og eins og sjá má á listanum þá munar oft umtalsverðu á verði sömu flöskunnar í Vínbúðunum og Fríhöfninni og á það við um aðrar léttvínstegundir líka líkt og niðurstöður verðkönnunar Túrista sýndu. Þess má geta að hver farþegi má í mesta lagi kaup sex léttvínsflöskur tollfrjálst.

Cava

Freixenet Cordón Negro Brut
1.599 kr. / 1.990 kr. í Vínbúðinni
Vivino: 3,6 af 5 (12659 álit)
Umsögn Vín & vín: Eitt af vinsælli cava vínum ársins 2016 í Vínbúðinni hér á ferð, klassískur cava sem hentar vel fyrir stórar veislur og svo auðvitað með léttari tapas réttum.

Reserva de la Familia Brut
2.399 kr. / 2.999 kr. í Vínbúðinni
Vivino: 3,9 af 5 (10612 álit)
Umsögn Vín & vín: Dýrasta cava flaskan í Vínbúðinni hér á ferðinni og ljómandi góð í ofanálag. Suðrænir ávextir í kraumandi bubblum.

Segura Viudas-Reserva Heredad
2.999 kr. (fæst ekki í Vínbúðinni)
Vivino: 3,9 af 5 (4431 álit)
Umsögn Vín & vín: Þetta vín kemur í tilkomumikilli flösku sem hefur gotneskt yfirbragð sem skemmir alls ekki stemninguna.  En það er ekki bara útlitið heldur er vínið reglulega vandað, fínar bubblur og ferskir sítrus- og perutónar.

Prosecco

Albino Armani Prosecco
1.699 kr. / 2.290 kr. í Vínbúðinni
Vivino: 3,8 af 5 (2699 álit)
Umsögn Vín & vín: Tónar af ferskjum og þroskuðum perum með fíngerðum bubblum.  

Tommasi Prosecco
1.499 kr. / 1.899 kr. í Vínbúðinni
Vivino:  3,6 af 5 ( 1447 álit)
Umsögn Vín & vín: Íslenskir vínunnendur þekkja vel til Tommasi og hans vinsælu rauðvína.  Hér er á ferð traustur valkostur fyrir veisluna.

Allegrini Prosecco
1.399 kr. / 1.990 k.r í Vínbúðinni
Vivino: 3,5 af 5 (46 álit)
Umsögn Vín & vín: Einn af strákunum okkar í íslenska landsliðinu hefur á síðustu árum nýtt sambönd sín í Verona til að tryggja Íslendingum á ný ljómandi fín vín frá Allegrini.  Ekki úr vegi að skála fyrir því í þessu Prosecco.

Kampavín

Mumm Cordon Rouge
4.299 kr. / 5.999 kr í Vínbúðinni
Vivino: 3,8 af 5  (9696 álit)
Umsögn Vín & vín: Rauði borðinn á miðanum vísar til æðstu heiðursorðu Frakklands, Légion d‘honneur, sem er við hæfi þegar maður verðlaunar sig með kampavíni.  Þekkt fyrir hátt hlutfall af rauðvínsþrúgunni Pinot Noir í víninu sem skilar þungavigtarvíni.  Kraftmiklar gylltar bubblur með nótum af hvítri ferskju og apríkósum í bland við sítrus ávöxtinn og langt sætt eftirbragð af hunangi og rjómakaramellu. Átt þú skilið verðlaun?

Moet & Chandon Brut Imperial
4.599 kr. / 5.899 kr. í Vínbúðinni
Vivino: 4,1 af 5 ( 41243 álit)
Umsögn Vín & vín: „Hún geymir sitt „Moet & Chandon“ inn í fallegum skáp“ söng Freddie Mercury.  Kampavín hefur alltaf verið tengt glamúrlífinu líkt og sportbílar, spilavíti og skínandi skartgripir.  Hver vill ekki smá lúxus með tónum af grænum eplum, sítrus og fyllingu með hunangsristuðum möndlum. Skál!

Veuve Clicquot Brut
4.799 kr. / 5.999 kr. í Vínbúðinni
Vivino: 4,2 af 5 (44035 álit)
Umsögn Vín & vín: Ein þekktasta kampavínsflaska heims sem ber nafn ekkjunnar sem ögraði feðraveldinu, á tímum Napóleons, og tók við rekstri fyrirtækisins eftir dauða eiginmanns hennar.   Kampavínsbragðið býður upp á meira en sítrusávexti og bubblur því hér leynast áhrif frá botnfallinu sem myndast við gerjunina og af því má greina kremað smjör á ristuðu súrdeigsbrauði.  Fágað, franskt og flott.

 

 

Nýtt efni

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …