Bestu flugfélög heims koma frá Asíu

Líkt og í fyrra þá þykja Singapore Airlines og AirAsia skara fram úr í fluggeiranum.

Flugvél úr flota Singapore Airlines sem annað árið í röð var valið besta flugfélag heims. Mynd: Singapore Airlines

Hátt í þrjátíu flugfélög voru tilnefnd í flokknum „Besta flugfélag í heimi“ á World Travel Awards verðlaunahátíðinni sem fór fram í Víetnam um helgina. Það var hins vegar nafn Singapore Airlines sem kom upp úr umslaginu en félagið bar einnig sigur úr býtum í fyrra. Þar á undan hafði flugfélagið Etihad einokað verðlaunin.

Í flokki lággjaldaflugfélaga voru tilnefningarnar einnig fjöldamargar en það var malasíska flugfélagið AirAsia sem fékk flest atkvæði en félagið hefur þótt standa sig best í sínum flokki allt frá árinu 2013. Árin þar á undan var easyJet sigursælt en svo er ekki lengur.

Verðlaunahátíðin World Travel Awards gengur stundum undir nafninu Óskarsverðlaun ferðaþjónustunnar og þar eru fyrirtæki og áfangastaðir tilnefndir í nær óteljandi mörgum flokkum. Í flokki flughafna var það Changi flugvöllurinn í Singapúr sem hlaut gullið, Hertz þótti besta bílaleigan og Lissabon var áfangastaður ársins.