Bjóða ferðamönnum gistingu í tjaldi á nýársnótt

Þrátt fyrir fréttir af vosbúð þeirra sem búa á tjaldsvæðum þessa dagana þá stendur ferðamönnum til boða að bóka gistingu í tjaldi yfir áramótin.

Þeir tjaldvagnar og bílar sem ferðamenn geta leigt sér yfir áramótin á vef Airbnb Skjámyndir af vef Airbnb

Hótelgisting í höfuðborginni á nýársnótt er nærri uppbókuð og aðeins 2 prósent af því gistirými sem Airbnb er með í Reykjavík er ennþá á lausu samkvæmt heimasíðu bandarísku gistimiðlunarinnar. Þar á meðal eru bílar og tjaldvagnar en eins og komið hefur fram í fréttum undanfarna daga þá gerir kuldinn vistina á íslenskum tjaldstæðum erfiða á þessum tíma árs. Þrátt fyrir það þá býðst ferðafólki sem er á leið til landsins yfir áramótin að leigja sér tjaldvagna eða jafnvel fólksbíla með dýnu.

Og þrátt fyrir lítin aðbúnað þá er leiguverðið ekki lágt. Þannig kostar leiga í tjaldvagni, sem sagður er í Laugardal, um 22 þúsund krónur á nótt og sólarhringsleiga á gamalli Toyota Corolla, með tjaldi í skottinu, er á 6 þúsund krónur.

„Það að ferðamönnum standi til boða gisting í gömlum bílum er auðvitað ekki boðlegt, hvað þá í tjöldum og tjaldvögnum að vetri til þegar veður geta verið válynd hér á landi,“ segir Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar. „Með óheftri útbreiðslu Airbnb gistirýmis þá sjáum við því miður dæmi sem þessi, að í boði er algerlega óviðunandi aðstaða fyrir ferðamenn. Þarna er hvorki hugað að öryggi og gæðum af neinu tagi. Leyfislaus starfsemi sem þessi er ólíðandi. Á Íslandi eru á milli 4 og 5 þúsund gestgjafar sem bjóða upp á gistirými á Airbnb, en innan við 1000 aðilar hafa nú þegar skráð sig með sína eign í heimagistingu. Þarna þarf augljóslega að gera betur til að eftirlit verði markvissara.“

Sem fyrr segir er ekki mikið úrval af lausum hótelherbergjum í Reykjavík um áramótin og verðið á þeim gistikostum sem finna má á vef Booking.com er í sumum tilvikum óvenju hátt. Til að mynda þarf að borga 914.716 krónur fyrir þrjár nætur, þar af nýársnótt, í fjögurra manna herbergi á Hótel Adam við Skólavörðustíg (sjá hér fyrir neðan). Hins vegar kosta hótelgisting á tveggja manna herbergi á Hótel Sögu eða Skugga um 44 þúsund krónur á nótt samkvæmt vef Booking.com.