Bjóða fólksbíla sem náttstað yfir vetrarmánuðina

Talsmaður Airbnb segir það á ábyrgð leigusalanna sjálfra en ekki fyrirtækisins að í vetur séu þar á boðstólum frumstæðir gistikostir.

Nokkrir þeirra fólksbíla sem leigðir eru út sem náttstaður hjá Airbnb. Myndir af vef Airbnb

Íslendingar leigja ferðafólki ekki aðeins íbúðir, hús og herbergi í gegnum bandarísku gistimiðlunina Airbnb því þar er einnig hægt að bóka hjólhýsi, tjöld og jafnvel hefðbundna fólksbíla með rúmdýnu. Og útleigan á bílum og tjaldvögnum takmarkast ekki við sumarmánuðina því þessir valkostir koma einnig upp hjá Airbnb þegar leitað er að gistingu í Reykjavík nú í vetur. Nokkrir bílar og tjaldvagnar voru til að mynda í boði yfir áramótin líkt og greint var frá hér á síðunni nýverið en í kjölfar þeirrar fréttar spurði Túristi upplýsingafulltrúa Airbnb hvort fyrirtækið hefði markað sér stefnu varðandi útleigu á tjöldum og tjaldvögnum þegar kalt væri í veðri. Í svari Airbnb segir að þessir gistikostir, sem tilgreindir voru í grein Túrista, séu í boði allt árið um kring og það á ábyrgð leigusalanna sjálfra en ekki Airbnb. „Airbnb er vettvangur þar sem gestgjafar og gestir geta náð saman,“ segir jafnframt í svari talsmanns fyrirtækisins. Ekki fékkst hins vegar svar við þeirri spurningu hvort Airbnb athugi þá gistikosti sem fyrirtækið leigir út.

Það skal tekið fram að áður en að bókun fer í gegn hjá Airbnb þá þarf leigusalinn að staðfesta hana. Það er því ekki víst að þeir Íslendingar sem í dag bjóða vetrardvöl í fólksbílum og tjaldvögnum hjá Airbnb myndu í raun selja fólki þessa gistingu yfir köldustu mánuðina. En á öðum árstímum eru þeir nær örugglega í útleigu en eins og sjá má á myndunum hér fyrir neðan þá eru sumir þessara gistikosta mjög frumstæðir og aðbúnaðurinn lítill sem enginn jafnvel þó bílarnir séu auglýstir sem „cozy“. Og þeir sem bóka þessa bíla og tjaldvagna að greiða á bilinu 7 til 22 þúsund krónur á sólarhring.

Að leigja sér fólksbíl sem náttstað virðist ekki vera valkostur fyrir þá sem ætla að heimsækja höfuðborgar hinna Norðurlandanna í vetur. Því samkvæmt lauslegri athugun Túrista koma þess háttar gistikostir ekki upp í heimasíðu Airbnb þegar leitað er eftir gistingu í Ósló, Helsinki, Stokkhólmi eða Kaupmannahöfn í vetur. Hins vegar bjóðast þar hjólhýsi en þess má geta að hjólahýsabyggðir njóta vinsælda í tengslum við skandinavísk skíðasvæði og eru þau þá upphituð enda getur hitastigið í sænsku og norsku fjöllunum verið lágt, líkt og þekkist hér á landi.