Bjóða öðruvísi ferð á HM

Áhugi Íslendinga á leikjum íslenska liðsins í Rússlandi er mikill en skortur á áætlunarflugi þangað gerir ferðalagið flóknara en á EM í Frakklandi. Úrval-Útsýn hefur hafið sölu á vikulangri fótboltaferð til Moskvu þar sem gefst færi á að sjá þrjá leiki.

Mynd: Peter Glaser

Flugfélög og ferðaskrifstofur hafa síðustu daga boðið upp á pakkaferðir í tengslum við leiki Íslands á HM í Rússlandi næsta sumar. Ferðirnar eiga það flestar sammerkt að þar er gert ráð fyrir stuttu stoppi í Rússlandi enda óhagkvæmt að láta farþegaþotu standa óhreyfða á rússneskum flugvelli. Farþegar í þessum ferðum kemst því sáralítill tími til að skoða sig um í Rússlandi.

Það verður annar háttur hafður á ferð Úrval-Útsýnar á leiki í HM í Moskvu. Flogið verður með AirBaltic frá Keflavíkurflugvelli til Riga og þaðan beint áfram til Moskvu þann 13. júní og sömu leið heim viku síðar. Farþegunum gefst því tækifæri á að sjá þrjá leiki í Moskvu á þessum tíma, þar á meðal leik Íslands og Argentínu þann 16. júní.

Luka Kostic, hjá Úrval-Útsýn, segir það óneitanlega synd að ferðast langa vegu til Rússlands til að horfa á strákanna okkar og snúa svo við beina leið heim. „Auðvitað er upplagt að nota ferðina og skoða sig aðeins um í þessu forvitnilega landi sem alla jafnan utan seilingar íslenskra ferðamanna,“ segir Luka.

Í ferð Úrval-Útsýnar verður gist á 5 stjörnu Radisson Blu hóteli í þjóðgarðinum Zavidovo fyrir utan Moskvu.