Enn eitt evrópskt flugfélag í þrot

60 þúsund farþegar FlyNiki eru nú strandaglópar eftir að forsvarsmenn þýska flugfélagsins Lufthansa gáfust upp á að taka austurríska lággjaldaflugfélagið yfir.

Þotur FlyNiki munu ekki leggja upp á Leifsstöð næsta sumar. Mynd: FlyNiki

Síðustu sumur hefur austurríska flugfélagið FlyNiki boðið upp á næturflug milli Íslands og Vínarborgar en nú er ljóst að ekki verður framhald á. Rekstur félagsins stöðvaðist nefnilega í dag og nú vinna austurrísk stjórnvöld að því að finna flug fyrir þá 60 þúsund farþega sem áttu pantað sæti með FlyNiki til síns heima næstu daga. Á heimasíðu flugfélagsins segir að leitað hafi verið til fjölda flugfélaga um aðstoð og að farþegar megi gera ráð fyrir því að borga lítilsháttar gjald fyrir heimferðina. Þeir áttu bókaða farmiða með FlyNiki til og frá Íslandi næsta sumar ættu að fá kaupverðið endurgreitt frá viðkomandi greiðslukortafyrirtæki samkvæmt þeim reglum sem um þannig greiðslu gilda.

FlyNiki var systurfélag þýska flugfélagsins Airberlin sem fór á hausinn í lok október. Ætlunin var að Lufthansa samsteypan tæki FlyNiki yfir en samkeppnisyfirvöld innan ESB vildu ekki samþykkja kaupsamninginn og því drógu stjórnendur Lufthansa tilboð sitt tilbaka. Það var því sjálfgefið að stöðva rekstur FlyNiki. Þar með er ljóst að hinar takmörkuðu flugsamgöngur milli Íslands og Austurríkis munu verða ennþá minni því nú er Austrian Holidays eitt um sinna þeirri flugleið. Talsmaður þess flugfélags segir í svari til Túrista að ekki sé útlit fyrir að bætt verði í Íslandsflug Austrian Holidays á næsta ári. En í júní síðastliðnum voru farnar 11 áætlunarferðir frá Íslandi til Vínarborgar og stóð FlyNiki fyrir sex þeirra samkvæmt daglegum talningum Túrista á flugumferð til og frá landinu.

FlyNiki er þriðja stóra evrópska flugfélagið sem verður gjaldþrota nú í lok árs því auk systurfélagsins, Airberlin, þá þurftu forsvarsmenn Monarch, fimmta stærsta flugfélag Breta, að játa sig sigraða fyrir stuttu siðan. Og þó það félag hafi ekki boðið upp á ferðir til Íslands þá gætti áhrifanna af falli þess hingað til lands því eigið fé Kortaþjónustunnar nær þurrkaðist út. Ástæðan er sú að Kortaþjón­ust­an var einn af færsluhirðum breska flugfélagsins og höfðu stjórnendur þess greitt Monarch hluta af andvirði farmiðakaupa fyrir ferðir sem ennþá voru ófarnar. Þegar rekstur Monarch stöðvaðist þurfti Kortaþjónustan að endurgreiða korthöfum andvirði allra ónotaðra flugmiða og þar á meðal þá upphæð sem Monarch hafði fengið fyrirfram.

Líkt og Túristi hefur greint frá þá er innan stjórnarráðsins unnið að mati á þörfinni fyrir að koma upp neyðaráætlun sem grípa má til ef reksturs íslensks millilandaflugfélags stöðvast. Það er hins vegar Samgöngustofa sem hefur eftirlit með rekstri íslensku flugfélaganna og samkvæmt svörum frá stofnuninni þá þóttu gjaldþrot Monarch og Airberlin ekki gefa tilefni til að kalla eftir sérstökum upplýsingum úr rekstri flugfélaganna.