Ennþá ósamið um flug við Rússa

Ætli íslensk flugfélög að fljúga í rússneskri lofthelgi verður að ganga frá sérstökum samningi um yfirflug við Rússa. Viðræður hófust í sumarbyrjun en ekkert samkomulag er í höfn.

flug danist soh
Mynd: Danist Soh/Unsplash

Ein af forsendunum fyrir því að íslensk flugfélög geti hafið áætlunarflug til Austurlanda fjær er að samningar takist við rússnesk stjórnvöld um leyfi til að fljúga yfir landið og þannig komast stystu leiðina til áfangastaða í Kína, Japan, S-Kóreu og fleiri landa í þessum heimshluta. Viðræður milli íslenska og rússneskra stjórnvalda um þess háttar samkomulag áttu sér stað í Moskvu í sumarbyrjun og aftur í Reykjavík haust en ennþá er ekkert samkomulag í höfn samkvæmt svari frá utanríkisráðuneytinu við fyrirspurn Túrista.

Það er hins vegar ekki nóg að íslenskir ráðamenn nái samkomulagi um yfirflug við Rússa því flugfélögin verða sjálf að gera álíka samning hvert fyrir sig í framhaldinu. Og samkvæmt heimildum Túrista þá eru líkur á því að Rússar setji það sem skilyrði að viðkomandi flugfélag hefji fyrst áætlunarflug til Rússlands og sýni fram á þeirri flugleið verði haldið úti í lengri tíma. Í framhaldinu ættu rússnesk yfirfvöld vera tilbúin til að gefa samþykki sitt fyrir yfirflugi en miðað við hvað samningaviðræður stjórnvalda hafa tekið langan tíma verður að teljast ólíklegt að Icelandair eða WOW nái að hefja flug til Austurlanda fjær á næstu misserum. En Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, hefur gefið það út að félagið stefni á áætlunarflug til Asíu á næsta ári.

Hingað til er Icelandair er eina flugfélagið sem haldið hefur úti áætlunarferðum hefur milli Íslands og Rússlands en sumarið 2013 og 2014 bauð félagið upp á flug til Sankti Pétursborgar. Í sumar ætla hins vegar forsvarsmenn rússneska flugfélagsins S7 að spreyta sig á Íslandsflugi og bjóða upp á vikulegar ferðir hingað frá Moskvu. Auk þess munu íslensku flugfélögin bjóða upp á stakar ferðir til Rússlands í tengslum við HM í knattspyrnu karla en þess háttar ferðir eru ekki háðar sérstöku samþykki frá yfirvöldum í Kreml. Jafnvel þó að loftferðasamningar milli Íslands og Rússlands takmarkist við að hámarki 7 ferðir í viku milli Íslands og Rússlands og þá aðeins til Moskvu, Sankti Pétursborgar, Sochi, Vladivostok eða Kaliningrad.

En auk þess að leika í Moskvu spilar íslenska liðið einnig í Rostov og Volgograd og bjóða íslensku flugfélögin nú ferðir þangað. Hins vegar gætu þau ekki hafið áætlunarflug til þessara tveggja borga nema loftferðasamningurinn við Rússa yrði útvíkkaður.