Erlendu flugfélögin með fjórðu hverju ferð

Samanlögð hlutdeild íslensku flugfélaganna minnkar þrátt fyrir fjölgun ferða.

Mynd: Isavia

Jafnvel þó Icelandair hafi fjölgað brottförum sínum um ríflega tíund í síðasta mánuði þá hefur hlutdeild félagsins, í flugumferðinni um Keflavíkurflugvöll, minnkað töluvert frá því í nóvember í fyrra. Þá stóð félagið fyrir um helmingi allra áætlunarferða en núna er hlutfallið komið niður í 44% samkvæmt daglegum talningum Túrista. Á sama tíma hefur ferðum WOW air fjölgað um 40 af hundraði og hlutdeild félagsins farið upp í 27,8%. Umsvif Air Iceland Connect hafa líka aukist en frá Keflavíkurflugvelli býður félagiði upp á flug til Akureyrar og Belfast og Aberdeen. Ferðirnar til síðarnefndu borganna eru í samstarfi við systurfélagið Icelandair.

En þrátt fyrir þessa viðbót hjá íslensku flugfélögunum þá juku þau erlendu samanlagt ferðir sínar meira og fór hlutdeild þeirra upp í 26,1% í nóvember. Svo hátt hefur vægi þeirra ekki áður samkvæmt talningum Túrista sem ná aftur til ársins 2011.  Í nóvember í fyrra stóðu erlendu flugfélögin fyrir um 23% af umferðinni en stóran hluta af aukningunni í ár má rekja til easyJet sem fjölgaði sínum ferðum frá Bretlandi um 50 talsins og litlu minni var viðbótin hjá Wizz air og British Airways.

Ef rekstur Airberlin hefði ekki stöðvast í lok október hefði bilið milli erlendu og íslensku flugfélaganna minnkað enn meira því félagið stóð fyrir um fjórum ferðum í viku til Íslands í nóvember í fyrra. Og ef ekki hefði komið til falls Airberlin þá hefði Icelandair mögulega ekki hafið áætlunarflug til Berlínar í byrjun nóvember.