Fleiri Bretar fljúga beint norður

Forsvarsmenn ferðaskrifstofunnar Super Break halda áfram að bæta við Íslandsferðum með beinu flugi til Akureyrar

Mynd: Visit North Iceland

Í júlí hóf breska ferðaskrifstofan Super Break sölu á sérstökum norðurljósaferðum um Norðurland. Fljótlega kom í ljós að eftirspurnin eftir ferðunum var mikil og var ferðunum fjölgað úr 8 í 14 líkt og kom fram í viðtali Túrista við Chris Hagan hjá Super Break í haust. Þar sagði Hagan að til stæði að bæta við brottförum á næsta ári og jafnframt hefja sölu á Akureyrarflugi fyrir árið 2019.

Í gær voru þau áform kynnt á fundi á með forsvarsfólki ferðamála fyrir norðan. Þar kom fram að auk þessara fjórtán ferða í janúar og febrúar þá myndi Super Break standa fyrir sjö brottförum í sumar og að næsta vetur yrðu ferðirnar að minnsta kosti 22 talsins. Sumarflugin verða frá 11. júní til 6. júlí en vetrarflugin frá 10. desember til febrúarloka. Super Break stefnir í framhaldinu af því að fjölga ferðum enn frekar og markmiðið er að bjóða upp á ferðir til Akureyrar allt árið um kring að því segir í tilkynningu frá Markaðsstofu Norðurlands.

Þar segir jafnframt að farþegar Super Break muni að öllum líklega bóka tæplega 9 þúsund gistinætur norðan heiða í janúar og febrúar og næsta sumar verðir næturnar um fjögur þúsund talsins.