Flugmiði til Evrópu á 1437 krónur

Það gerist ekki oft að flugmiðinn kostar jafn mikið og léttar veitingar um borð en það er hins vegar raunin í lok vetrar.

Frá Genf. Mynd: Oliver Miche/GeneveTourisme

Farþegar á Keflavíkurflugvelli hafa nú úr miklu meira að moða en áður og fargjöldin á sumum flugleiðum eru óvenju lág um þessar mundir. Þannig geta þeir sem ferðast létt og spara sér þar með farangursgjöld flugfélaganna auðveldlega fundið farmiða til Evrópu á innan við 10 þúsund krónur fyrstu mánuði næsta árs. Til Norður-Ameríku er aðeins dýrara að ferðast en flugmiðarnir þangað eru líka í mörgum tilfellum nokkru ódýrari en oft áður.

Ekkert þeirra kostaboða sem nú eru fáanleg slá hins vegar út fargjöld easyJet frá Íslandi til Genfar í lok mars. Þá kostar flugleggurinn héðan til svissnesku borgarinnar aðeins 1.437 krónur (11,68 evrur) og dugar það rétt svo til að greiða brottfarargjöld Keflavíkurflugvallar. Og til samanburðar má geta að samloka og bjórglas um borð í þotum easyJet kostar ögn meira en ódýrari flugmiðinn.

En þó hægt sé að fljúga út heim fyrir sáralítið þá er ekki víst að heimferðin verði jafn ódýr og það er einmitt raunin hjá easyJet. Þannig getur sá sem flýgur til Genfar í lok mars reiknað með að borga allt að tífalt hærra verð fyrir flugið til Íslands frá svissnesku úraborginni og farmiði, báðar leiðir, er þá á tæpar 17.500 krónur. Fyrir ferðatöskuna þarf svo að borga rúmar 4 þúsund krónur. Frá Genf er stutt í nokkur af þekktustu skíðasvæðu Alpana og flest þeirra ættu að vera opin í lok mars en borga þarf aukalega um 10 þúsund krónur, báðar leiðir.

Auk easyJet býður Icelandair einnig upp á flug til Genfar frá vori og fram á haust. Og fyrir þá sem ætla að heimsækja Genf á næstunni má geta þess að flugfarþegar geta fengið frían miða í  lestina frá flugstöðinni og niður í bær og allir hótelgestir í borginni geta nýtt sér sporvagna og strætó án greiðslu. Sjá nánar í vegvísi Túrista fyrir Genf.

Bera saman hóteltilboð