Flugsamgöngur liggja ekki lengur niðri á jóladag

Áður var það svo að enginn komst fljúgandi til að frá landinu á jóladag en annað árið í röð er hægt að velja á milli þriggja ferða.

Mynd: Isavia

Klukkan níu á aðfangadagskvöld flýgur frá New York þota á vegum Delta Air Lines sem lendir árla dags á jóladag á Keflavíkurflugvelli en snýr tilbaka klukkan níu. Stuttu síðar koma svo hingað flugvélar SAS frá Ósló og Kaupmannahafn og halda þær aftur til Skandinavíu um hádegið. Þar með er hægt að loka Leifsstöð því fleiri ferðir eru ekki á dagskrá þann 25. desember enda liggur flugáætlun íslensku flugfélaganna sem fyrr niðri á þessum degi og reyndar tíðkaðist það lengi vel að engar flugsamgöngur voru í boði til og frá Íslandi á jóladag. Á því varð breyting jólin 2014 þegar easyJet stóð fyrir einni ferð hingað frá Genf en árið eftir voru engar flugferðir um Keflavíkurflugvöll. Í fyrra komu hins vegar hingað þrjár þotur eða jafn margar og gert er ráð fyrir í ár.

Þessi takmarkaða flugumferð um Keflavíkurflugvöll á jóladag er eiginlega séríslensk venja því til að mynda er töluverð traffík um aðrar norrænar flughafnir alla hátíðardagana líkt og tvær ferðir skandinavíska flugfélagsins SAS, hingað til lands, eru dæmi um. Og þeir sem geta hugsað sér að nýta jóladaginn í millilandaflug en hafa ekki ennþá bókað miða komst til New York og heim aftur á gamlársdag fyrir um 55 þúsund krónur en samskonar ferðalag með SAS til höfuðborga Noregs og Danmerkur kostar ögn meira.